Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir hrunið notað í pólitískum tilgangi

05.10.2018 - 08:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að upprifjun á hruninu sé gjarnan notað í pólitískum tilgangi af stjórnmálamönnum. Rætt var á Morgunvakt Rásar 1 um hvernig til hafi tekist að endurvinna traust landsmanna til Alþingis og stjórnmálamanna í kjölfar hrunsins.

„Það er eins og menn nái ekki að ýta þessu til hliðar og líta fram á veginn. Ég kann enga skýringu á þessu. Það er einhvern veginn þannig að menn vilja halda þessu lifandi. Það er kannski hluti af pólitíkinni,“ segir Brynjar.

„Ég upplifi það aðeins að þetta er notað í pólitískum tilgangi. Það áttu ákveðnir pólitíkusar að bera ábyrgð á hruninu og þá er mjög gott, sérstaklega svona á afmælisári, að rifja upp að þú barst ábyrgð á þessu, ekki ég. Ég held að við höfum öll borið einhverja ábyrgð á þessu,“ segir hann. Bætir hann við að það sé algjörlega við hæfi að fjalla um hrunið en að menn reyni óneitanlega að nýta sér það pólitískt.

Brynjar hefur áður sagt, þegar umræða fór fram á Alþingi um skýrslu um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu, að traust verði ekki aukið með reglum. Þar þurfi hver og einn að líta í eigin barm. Reglur þess efnis gætu hugsanlega dregið úr trausti á þingmönnum.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV