Segir hljóðdeyfa minnka álag á hjarðirnar

20.09.2017 - 20:21
Í dag er síðasti dagur hreindýraveiða, en í ár var í fyrsta sinn leyfilegt að nota hljóðdeyfa við veiðarnar. Leiðsögumaður telur að hljóðdeyfar ættu að vera skylda enda bæti það starfsaðstæður og minnki álag á hjarðirnar. „Það munar rosalega miklu að hafa hjóðdeyfi, vegna þess að það er allt annað vinnuumhverfi fyrir okkur,“ segir Sigurður Aðalsteinsson leiðsögumaður.

„Þessi hávaði í hinum rifflunum hljóðdeyfislausum – og ég tala nú ekki þeim sem eru með „muzzle brake“ – er hreinlega heilsuspillandi. Þessi desibel sem koma úr þeim eru langt yfir öllum heilsuverndarmörkum,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að það sé ekkert hættulegt að nota hljóðdeyfa. „Þetta er ekkert eins og í amerískum bíómyndum þar sem kemur bara kviss úr og enginn heyrir neitt. Þetta er ekki svona bófahasar að vera með hljóðdeyfa eins og margir halda og er lýst í bíómyndum sem er alveg út úr korti.“

Hann segir að þetta mundi líka muna miklu fyrir dýrin, því að hávaðinn af hljóðdeyfislausum rifflum sé jafnheilsuspillandi fyrir þau og mennina. „Það er mjög svipað og þau eru bara miklu rólegri ekki eins stressuð. Það er bara miklu betra að gera þetta svona og það er hreinu upp á að halda að það ætti að skylda hljóðdeyfa við hreindýraveiðar. Það er hlutur sem að þarf að gera og á að gera,“ segir Sigurður Aðalsteinsson.

Fréttamaður RÚV fór í veiðiferð með Sigurði og fleirum og hægt er að sjá afraksturinn í spilaranum hér að ofan.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi