Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir fréttina geta skaðað samstarf ríkjanna

19.11.2018 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Frétt Stundarinnar um að öfgahópar hafi gengið í fjölmennri hátíðargöngu í Póllandi, gæti haft slæm áhrif á samstarf Íslands og Póllands, að mati sendiherra Póllands á Íslandi. Hann hefur kvartað yfir frétt miðilsins til allra helstu ráðamanna þjóðarinnar.

Frétt sem vakti heimsathygli

Stundin birti frétt fyrir viku um að leiðtogar Póllands hafi marsérað um götur Varsjár í fjölmennri göngu, þar sem öfgahópar og nýfasistar hafi verið með. Gangan var haldin í tilefni 100 ára sjálfstæðisafmælis landsins. Í fréttinni er vísað í sömu umfjöllun ýmissa alþjóðlegra fjölmiðla á borð við Al Jazeera, BBC, New York Times, Euronews og Guardian.  

Sendi bréfið til allra helstu ráðmanna

Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyński, var ósáttur með fréttaflutning Stundarinnar og sendi bréf þess efnis til ritstjóra Stundarinnar. Afrit sendi hann til allra blaðamanna miðilsins, sem og á skrifstofur forseta Íslands, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og Alþingis. 

Í bréfinu segir hann fréttina falsfrétt og móðgandi fyrir Pólland og pólsku þjóðina. Hann fer fram á afsökunarbeiðni. Pokruszyński segir það óvenjulegt að þjóð sé móðguð á þennan hátt á 100 ára afmæli sínu og það sé hluti af starfi hans að mótmæla því. 

Óttast að fréttin geti skaðað samstarf Íslands og Póllands

Spurður hvers vegna hann hafi látið æðstu embættismenn þjóðarinnar vita af óánægju sinni segir Pokruszyński það einfalt, Ísland og Pólland hafi fram til þessa átt í góðum og nánum samskiptum og samstarfi og hann vilji ekki að neitt skaði það. 

„Við erum á þeim tíma þar sem samskipti Íslands og Póllands eru í mótun og ég vil ekki að neitt eyðileggi það góða samstarf sem við áttum, þar til þessi grein var birt,” segir Pokruszyński og segir svona fréttir geta haft áhrif á samband ríkjanna. „Ég óttast það. Og þess vegna hef ég látið íslensk yfirvöld vita af óánægju minni. Ekki til þess að þau aðhafist í málinu, heldur til þess að þau viti af því.” 

Hefur fengið óþægileg skilaboð

Jón Bjarki Magnússon, sem skrifaði fréttina, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að honum hafi brugðið verulega þegar hann fékk bréfið frá sendiherranum. Hann hefur í kjölfarið fengið alls konar óþægileg skilaboð vegna fréttarinnar frá Pólverjum á Íslandi. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er í flugi erlendis og ekki náðist í hann í síma við vinnslu fréttarinnar. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður