Segir forystuna fallna á prófinu

Mynd með færslu
 Mynd:
Hreiðar Eiríksson, sem skipaði 5. sæti á lista Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar, hefur sagt sig úr flokknum. Hann segir að forysta flokksins hafi í raun sýnt „fullan stuðning við íslamafóbískan áróður Framsóknar og flugvallarvina“.

Hreiðar sagði sig frá lista Framsóknar og flugvallarvina fyrir kosningar og sagði þá að hann gæti ekki stutt orð Sveinbjargar Sveinbjörnsdóttur, oddvita framboðsins, um að afturkalla ætti lóðarúthlutun undir mosku múslima. Þá sagðist Hreiðar ekki ætla að segja sig úr flokknum. Nú hefur hann hins vegar skipt um skoðun eftir að hafa fylgst með viðbrögðum forystu flokksins við málflutningi framboðsins í Reykjavík.

Útúrsnúningar og rangfærslur
Hreiðar tilkynnti um úrsögn sína úr Framsóknarflokknum á Facebook-síðu sinni í hádeginu. Þar sagðist hann hafa fylgst emð viðbrögðum forystu Framsóknarflokksins moskuumræðunni. „Viðbragðaleysi forystunnar, meðan á kosningabaráttunni stóð, var æpandi. Viðbrögð formannsins og annarra forystumanna flokksins eftir kosninga hafa verið þannig að vart er hægt að skilja þau öðruvísi en fullan stuðning við íslamafóbískan áróður Framsóknar og flugvallarvina,“ segir Hreiðar og segir stöðuna hafa verið ljósa eftir miðstjórnarfund flokksins fyrir rúmri viku. „Útúrsnúningarnir og rangfærslurnar, sem forystan hefur gripið til í því skyni að réttlæta hegðun framboðsins í Reykjavík, eru klaufalegar og ósannfærandi. Forystan hefur fallið á siðferðilegu prófi og niðurstaða miðstjórnarfundarins sýnir að flokkurinn styður þann málsstað sem settur var fram í borgarstjornarkosningunum.“

Úrsagnir að undanförnu
Nokkuð hefur verið um það að undanförnu að framsóknarmenn segi sig úr flokknum vegna málflutnings oddvita Framsóknar og flugvallarvina um múslima og viðbragða forystunnar við henni. Þorsteinn Magnússon, varaþingmaður flokksins, sagði sig úr honum á dögunum og sagði orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins og forsætisráðherra, fela í sér fullkomna afneitun á því að nokkuð hafi verið athugavert við kosningabaráttu flokksins í Reykjavík. Ásta Hlín Magnúsdóttir, fyrrverandi formaður Sambands ungra framsóknarmanna og kosningastjóri flokksins í Fjarðabyggð sagði sig einnig úr flokknum í vikunni.

Áður höfðu Ómar Stefánsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Kópavogi, og Jenný Jóakimsdóttir, sem skipaði 2. sæti á lista flokksins í Hafnarfirði, sagt sig úr flokknum.

Leiðrétt: Jenný Jóakimsdóttir var rangfeðruð í upphaflegri útgáfu fréttarinnar.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi