Segir Femínistafélag HÍ leggja Önnu í einelti

27.03.2019 - 17:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, afþakkar þátttöku á málþingi um frjósemisfrelsi íslenskra kvenna sem Femínistafélag HÍ heldur á morgun. Hann sakar félagið um „einelti og rógburð“ í garð Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, með stuðningi við yfirlýsingu Kvenréttindafélags Íslands. Þetta kemur fram í svari Gunnars Braga við boði Femínistafélagsins. Í svarinu afþakkar hann boð um þátttöku en biður þess í stað að yfirlýsing frá sér verði lesin upp á málþinginu.

Femínistafélag HÍ heldur þessa vikuna þemadagana Píkudaga sem miða að því að opna umræðu um málefni tengd píkunni. Lokaviðburður daganna er áðurnefnt málþing. Á málþinginu verður frjósemisfrelsi kvenna rætt með áherslu á tengd frumvörp sem liggja fyrir þinginu núna. Þingflokksformönnum allra flokka á Alþingi var boðið að senda fulltrúa til þess að taka þátt í pallborðsumræðum. Sex flokkar hafa staðfest þátttöku; Framsókn, Píratar, Samfylkingin, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn. Flokkur fólksins afþakkar þátttöku vegna anna. 

Yfirlýsing sem einkenndist af „einelti og rógburði“

Í yfirlýsingu Gunnars Braga segir „Vegna undirtekta Femínistafélags Háskóla Íslands við yfirlýsingu Kvenréttindafélags Íslands sem lesin var upp á fundi Velferðarnefndar 4. mars sl. og einkenndist af einelti og rógburði gegn eina kvenkyns þingmanni Miðflokksins mun Miðflokkurinn ekki senda fulltrúa á þennan fund eða á aðrar samkomur félagsins að svo komnu máli.“ Með því að taka undir yfirlýsingu Kvenréttindafélagsins hafi Femínistafélagið gert sig sekt um samskonar einelti. 

„Hafi Femínstafélag Háskóla Íslands áhuga á að ræða málefni kvenna og baráttumál félagsins fyrir kynjajafnrétti sem og öðrum sjálfsögðum mannréttindum er forsvarsmönnum félagsins boðið að hitta fulltrúa flokksins við fyrsta hentugleika,“ bætir Gunnar við. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins.

„Gerum okkur grein fyrir að konur eru ekki yfir gagnrýni hafnar“

Í svari sínu vísar Gunnar Bragi til yfirlýsingar sem stjórn Kvenréttindafélagsins las upp á fundi Velferðarnefndar 4. mars. Þar sagðist félagið mótmæla því að fulltrúar nefndarinnar séu settir í þá stöðu að þurfa að sitja fundi með þingmanni sem hafi tekið þátt í hatursorðræðu á Klaustarbar.

Stjórn femínistafélagsins svarar Gunnari Braga og ítrekar þar undirtektir við yfirlýsingu Kvenréttindafélagsins sem félagið segir að eigi ekkert skylt við einelti eða rógburð. „Sem femínistar gerum við okkur vel grein fyrir því að konur er ekki yfir gagnrýni hafnar. Kyn þingmanns Miðflokksins sem sæti á í Velferðarnefnd kemur yfirlýsingu Kvenréttindafélagsins ekki við, einungis þátttaka viðkomandi þingmanns í hinu svokallaða „Klausturmáli“  og orð hennar þar.“

Félaginu þyki miður að Gunnar Bragi láti sem yfirlýsing Kvenréttindafélagsins hafi eitthvað með kyn Önnu Kolbrúnar að gera. „Það að ætla að bera fyrir sig kyn til að sleppa við gagnrýni á gjörðir einstaklinga þykir okkur ámælisvert. Það er þingflokknum einnig ekki til framdráttar að einungis ein kona sé innan þeirra raða. “ 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV