Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir fátt koma á óvart í fjárlagafrumvarpinu

11.09.2018 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar - RÚV
Fátt kemur á óvart í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag, að mati Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar. „Þetta byggir á málamiðlun tveggja ólíkra flokka sem vilja pínu vera í friði hvor fyrir öðrum þannig að hvorugur nær að koma sínum grundvallarstefnumálum í gegn,“ sagði hann í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, í beinni útsendingu í hádegisfréttum.

Logi telur að eitt og annað sé jákvætt í frumvarpinu, til dæmis aðgerðir í loftslagsmálum, sem hafi verið löngu tímabærar. Þá verði meiru varið í barnabætur líkt og flokkur hans hafi lagt til. Þá sé tryggingargjald að lækka sem komi sér vel fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. „Ég sakna þess að það er engin framtíðarsýn í þessu. Það er til dæmis verið að skera niður húsnæðisstuðning sem er brýnt mál í dag. Sjúkrahúsin vantar pening til að gera haldið óbreyttri þjónustu áfram,“ segir Logi. 

Fjármagnstekjur lækka um tvo milljarða og veiðigjöld um þrjá. „Það er verið að veikja tekjustofna á tíma þegar við hefðum þurft á því að halda að byggja upp félagslegan stöðugleika hér í landinu.“

Samfylkingin ætlar að setja mál tengd hinum almenna launamanni á oddinn á komandi þingi, að sögn Loga, svo sem stórsókn í húsnæðismálum og leggja til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði löggiltur. 

Alþingi verður sett nú klukkan 14:00 og verður athöfnin í beinni útsendingu í útvarpi, sjónvarpi og á ruv.is.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV