Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir farmiðasölu ekki hafa minnkað eftir leka

22.08.2018 - 08:41
Mynd með færslu
 Mynd: WOW air
Upplýsingar um slæma fjárhagsstöðu WOW air, sem lekið var til fjölmiðla í síðustu viku, hefur ekki haft áhrif á miðasölu félagsins. Þetta segir Skúli Mogensen, forstjóri fyrirtækisins og eini eigandi þess, í samtali við Markaðinn í dag.

„Miðasala félagsins hefur verið fín og við sjáum ekki að þessi umfjöllun hafi haft nein áhrif á sölu miða síðustu daga,“ segir hann við blaðið. Í upplýsingunum, sem fréttastofa RÚV fjallaði meðal annars um í síðustu viku, kemur fram að eigið fé félagsins nemur einungis 1,5 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið er einungis tæp 5 prósent en var tæp 11 prósent um síðustu áramót.

Rekstrartap á tímabilinu júlí 2017 til júní 2018 nam 4,9 milljörðum króna en tapið var um 1,4 milljarðar króna allt árið í fyrra.

Skúli upplýsir hins vegar í viðtalinu við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, að rekstrarstaða WOW muni batna verulega á þriðja fjórðungi þessa árs og segir hann útlit fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) verði þá að jafnvirði 3ja milljarða króna og aukist um 159 prósent á sama tima frá ári.

Skúli segir að undirbúningur að fjármögnuninni, sem nú stendur yfir í samvinnu við norska fyrirtækið Pareto Securities, hafi staðið yfir i rúmt ár. Til stendur að afla lánsfjár fyrir sex til tólf milljarða króna. Skúli er bjartsýnn á að það takist, spurningin sé bara sú hversu stórt skuldabréfaútboðið verður og á hvaða kjörum lánin fáist.