Segir fáar Chibok stúlkur eftir á lífi

15.04.2018 - 00:30
Family members celebrate as they embrace a relative, one of the released kidnapped schoolgirls, in Abuja, Nigeria, Saturday, May 20, 2017. ÔªøThe 82 Nigerian schoolgirls recently released after more than three years in Boko Haram captivity reunited with
 Mynd: AP Images
Nígerískur blaðamaður segir aðeins 15 Chibok-stúlknanna enn á lífi af þeim 112 sem eftir eru í haldi Boko Haram hryðjuverkasamtakanna. Blaðamaðurinn er með heimildamenn fyrir þessu innan samtakanna.

Fjögur ár eru í dag síðan 276 stúlkum var rænt úr skóla í Chibok af vígamönnum úr Boko Haram. Mörgum þeirra hefur verið sleppt. Að sögn Ahmad Salkida, sem sá um samningaviðræður við Boko Haram fyrir hönd stjórnvalda, gætu fleiri verið lausar úr haldi þeirra ef stjórnvöld hefðu haldið rétt á spilunum. Mörg tækifæri til þess að frelsa þær hafi glatast.

Talsmaður nígerískra stjórnvalda segir þau enn eiga í viðræðum við hryðjuverkasamtökin um lausn þeirra 112 stúlkna sem eftir eru í haldi þeirra. Hann segir enga ástæðu til þess að halda að einhverjar þeirra séu látnar.

Salkida segir Goodluck Jonathan, þáverandi forseta Nígeríu, hafa beðið sig um að semja um lausn stúlknanna hálfum mánuði eftir að þeim var rænt. Fimm sinnum var hann búinn að semja um lausn þeirra að eigin sögn. Vegna tafa af hálfu stjórnvalda slitnuðu samningaviðræðurnar. Breska ríkisútvarpið segir Salkida ekki vilja gefa upp nöfn þeirra stúlkna sem hann telur vera eftir á lífi. Það eigi að vera í höndum stjórnvalda.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi