Segir erfitt að bregðast við fjölda ferðamanna

27.09.2016 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Hauks - Borgarbyggð
Mikilvægt er að finna leið til að breyta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga svo að sveitarfélög geti brugðist við breyttu samfélagi sem hefur orðið með miklum fjölda ferðamanna. Þetta segir sveitarstjóri í Borgarbyggð.

Fjöldi ferðamanna í Borgarbyggð

Í kvöldfréttum RÚV í gær var sagt frá því að sveitarfélög þar sem eru náttúruperlur og í námundan við stóra þéttbýlisstaði virðast hafa minnstar tekjur af ferðamönnum. Gunnlaugur Auðunn Júlíusson, sveitarstjóri í Borgarbyggð segir það virðast eiga við um Borgarbyggð en þar hefur umferð aukist sérstaklega mikið í ár. Gunnlaugur telur að bæði leiti fólk mikið út fyrir þau svæði sem voru þéttsetin áður en að fólk sæki einnig í nýja þjónustu eins og ísgöngin í Langjökli og hellinn Víðgelmi. Hann segir Borgarbyggð, eins og önnur sveitarfélög, eiga erfitt með að bregðast við svo auknu álagi.  „Við tókum saman nýlega yfirlit yfir þann kostnað sem þarf að leggja í vegna næsta árs ef vel ætti að vera bæði hvað varðar uppbyggingu, viðhaldsverkefni og hreinlætismál og það eru 200 milljónir.“ Gunnlaugur segir yfirlitið hafa verið undirbúning að umsókn í framkvæmdasjóð ferðamannastaða en að sá sjóður sé allt of lítill, eða um 500 milljónir fyrir allt landið, sem varpi ljósi á hversu mikið sveitarfélög geti fengið miðað við þörfina.

Breyta þurfi tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga

Gunnlaugur segir að aukin fjöldi ferðamanna hafi haft ýmis góð samfélagsleg áhrif í sveitarfélaginu með aukinni uppbyggingu í ferðaþjónustu en þó að ljóst að finna verði leið til að breyta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, til dæmis með gjaldtöku: „Eða að eitthvað af þeim veltusköttum sem að ríkið fær af sívaxandi hingaðkomu ferðafólks renni til sveitarfélaganna svo þau geti brugðist við breyttu samfélagi.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi