Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir engar töfralausnir í gjaldmiðli

18.10.2018 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að ræða þurfi krónuna og gjaldmiðla á opinskáan hátt og bendir á að meirihluti landsmanna sé á móti upptöku evru og inngöngu í Evrópusambandið. Hún segir vanda veikrar krónu um þessar mundir ekki leysast með inngöngu í Evrópusambandið.

 

Forsætisráðherra flutti Alþingi í dag skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu. Til grundvallar lá skýrsla sem kynnt var í sumar og unnin af starfshópi um endurmat á peningastefnu Íslands. Sá starfshópur var skipaður í mars 2017, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Sú endurskoðun gekk út frá þeirri forsendu að krónan yrði gjaldmiðill Íslands í náinni framtíð. 

„Meirihluti landsmanna, þrátt fyrir að vera hlynntur upptöku evru, myndi hafna inngöngu í Evrópusambandið eða 57,3 prósent eru andvíg inngöngu í Evrópusambandið og sömuleiðis er meirihluti landsmanna andvígur því að taka upp aðildarviðræður við ESB þannig að þegar við ræðum um Evrópusambandið skulum við hafa alla myndina undir og það er það sem ég er að segja. Það er ekki nóg að ræða bara peningastefnu eða gjaldmiðil þegar við tölum um Evrópusambandið,“ sagði forsætisráðherra á Alþingi í dag.

Stjórnarflokkarnir styðja krónuna sem gjaldmiðil Íslands og forsætisráðherra sagði á Alþingi í morgun að ekki væri einhlít skýring á veikingu krónunnar um þessar mundir. Umræða um stöðu flugfélaganna, minni vöxt í ferðaþjónustu og óvissu á vinnumarkaði hefði þar áhrif. 

„Hugmyndin er sú að gera enn eina tilraunina með krónuna þó það sé löngu ljóst að það mun aldrei ganga að reka svo smáa sjálfstæða mynt nema með ærnum tilkostnaði sem almenningur ber hættum því,“ sagði Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingar á Alþingi í dag. Ódýrasta og skynsamlegasta leiðin sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, segir Oddný. 

„Mér finnst nauðsynlegt að við lögum krónuna vegna þess að krónan er drasl eins og hún er í dag en við munum ekki geta tekið upp evru með inngöngu á augabragði,“ sagði Smári McCarthy þingmaður Pírata.

Og sitt sýnist hverjum og ljóst að valkostir Íslands eru ekki margir. Varaformaður Viðreisnar benti á að krónan væri mjög dýr mynt, hún kostaði 200 milljarða á ári. „Það er miður að skýrsluhöfundum var ekki heimilað að fjalla um raunhæfasta og besta valkostinn með núverandi peningastefnu sem er upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu. Þáverandi samstarfsflokkur okkar í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, hafði ekki kjark til að horfast í augu við þann samanburð, mögulega af ótta við að hann reyndist einfaldlega sá skynsamasti og hagfelldasti fyrir þjóðina,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar.

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV