Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir endurnýjun þýða breytingar

27.10.2018 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunútgáfan
 Fyrsti varaforseti ASÍ segist ekki í vafa um að hart verði tekist á í nýhöfnum kjaraviðræðum og það stefni í átök ef ekki tekst að semja. Miklar breytingar á verkalýðsforystunni endurspegli breyttar áherslur.

 

43. þingi ASÍ lauk í gær þar sem þrír nýir forsetar tóku við, Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins var kjörin forseti, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness 1. varaforseti og Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins 2. varafroseti. Þá urðu töluverðar breytingar á miðstjórn sambandsins, þar sem meðal annars formaður Eflingar og VR koma ný inn sem og formaður Flugfreyjufélags Íslands, en Ingibjörg Óska Birgisdóttir stjórnarmaður í VR og fyrrverandi varaforseti ASÍ og Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri AFLS og frambjóðandi til forseta ASÍ voru meðal þeirra sem ekki náðu kjöri. Nýkjörinn 1. varaforseti ASÍ segir breytingarnar endurspeglar nýjar áherslur.

„Ég held að þetta endurspegli þær breytingar sem eru að verða í íslenskri verkalýðsbaráttu um þessar mundir. Þetta endurspeglar þær áherslur sem verið er að kalla á meðal okkar félagsmanna og þetta eru töluverðar breytingar.“
Þýðir þetta að þið verðið harðari í horn að taka?
„Ég held að okkar verkefni framundan verði að fylgja okkar sanngjörnu, réttlátu kröfugerð eftir og við munum gera það. Það liggur alveg fyrir að það þarf að taka á þessari misskiptingu og þessu óréttlæti og ójöfnuði sem er í íslensku samfélagi. Og nú erum við búin að taka við keflinu og við þurfum að sýna okkur og sanna og reyna að gera eins vel og hægt er okkar félagsmönnum til hagsbóta,“ segir Vilhjálmur Birgisson.

 Hann segist sjálfum sér samkvæmur og standi og falli með sínum málefnum. Hann vilji taka á okurvöxtum í fjármálakerfinu og afnema verðtryggingu, sem sé núna líka  komið inn í kröfugerð' Starfsgreinasambandsins og VR.

„Ég held að það sé líka alveg rétt að vera mín sem einn af forsetum ASÍ sýni svo ekki verður um villst hversu ofboðslegar breytingar eru að verða á forysti Alþýðusambands Íslands.“

Fjöldi kjarasamninga verður laus um áramótin og segir Vilhjálmur það vera á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar, en líka viðsemjenda hennar sem og ríkisins að ná þar niðurstöðu. Hann segir viðræður verða erfiðar.

„Ég er ekkert í neinum vafa um það, það á eftir að verða mikið tekist á, en ábyrgð okkar er sú að það takist. Ef það tekst ekki þá er alveg ljóst í hvað stefnir.“
Og það er?
„Átök,“ segir 1. varaforseti ASÍ.