Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir ekkert leynimakk við Rússa

02.12.2017 - 17:57
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps.
 Mynd: AP
Engar leynilegar viðræður áttu sér stað milli starfsmanna Donalds Trumps og Rússa. Þetta fullyrti forsetinn síðdegis en fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi hans játaði að hafa veitt alríkislögreglunni rangar upplýsingar. Mike Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, var handtekinn í gær og leiddur fyrir dómara.

Þar játaði hann að hafa vísvitandi sagt alríkislögreglunni ósatt um samskipti sín við sendiherra Rússa í Bandaríkjunum. Hann sagðist ætla að aðstoða Robert Mueller, sem rannsakar tilraunir Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar.

Flynn var lykilmaður í kosningateymi Trumps áður en hann tók við starfi þjóðaröryggisráðgjafa og sá fyrsti úr starfsliði Trumps sem er ákærður. Bandarískir miðlar hafa mikið fjallað um samskipti Flynns og Jared Kushners, tengdasonar Trumps, við Rússa. Trump svaraði spurningum fjölmiðla á lóð Hvíta hússins nú síðdegis áður en hann hélt til New York í þyrlu. Hann sagðist ekki hafa áhyggjur af þeim upplýsingum sem Flynn gæfi Mueller. 

Hann segir engar leynilegar viðræður hafa átt sér stað milli sinna manna og Rússa, þrítekur það raunar eins og honum er svo tamt. Mueller tók við rannsókn málsins eftir að Trump rak James Comey í vor, en hann gegndi embætti forstjóra alríkislögreglunnar. Mueller getur ákært hvern þann sem honum sýnist, þar á meðal Trump sjálfan.

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV