Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir dómnefnd andstæða stjórnarskrá

24.09.2015 - 17:49
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður. - Mynd: Skjáskot / RÚV
Ragnar Aðalsteinsson segir að dómnefndin sem skilaði áliti um hæfi hæstaréttardómara sé andstæð stjórnarskrá, þar sem hún er eingöngu skipuð körlum. Þetta kom fram í Síðdegisútvarpi Rásar tvö í dag.

Ragnar ræddi þar, ásamt Unni Brá Konráðsdóttur formanni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, álit dómnefndarinnar sem taldi Karl Axelsson hæfari en Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldi Einarsdóttur þrátt fyrir að þau hefðu reynslu af dómarastörfum, en Karl ekki. 

Ragnar segir að sett hafi verið sérstök jafnréttisregla í stjórnarskrá árið 1995 um að konur hafi sama rétt og karlar í hvívetna. Það átti að auka þátttöku kvenna í samfélaginu og sjá til þess að þær hafi sömu stöðu og karla að öllu leyti. Síðan þá hafi verið sett inn lagaákvæði til að framfylgja þessu. „Nefndir hins opinbera sem eru eingöngu skipaðar körlum eru í andstöðu við stjórnarskrána,“ segir Ragnar. 

Unnur Brá tekur undir athugasemdir innanríkisráðuneytisins um að skipun nefndarinnar sé andstæð jafnréttislögum. Hún telur ótækt að kynjahlutföll í Hæstarétti hafi ekki breyst meira en raun ber vitni. Lögin kveða hins vegar á um að ráðherra eigi að skipa í dómaraembætti umsækjanda sem dómnefndin hefur talið hæfastan. Til að breyta þessu þarf samþykki Alþingis. Unnur Brá telur rétt að velta því fyrir sér að taka málið upp þar. „Nú er tvennt í stöðunni. Annars vegar að nýta þann möguleika sem löggjöfin býður uppá, að ráðherra vísi þessi til þingsins, eða þá að endurskoða þessi ákvæði laganna.“

Ragnar telur hins vegar ráðherra ekki bundinn af áliti dómnefndar sem er ekki skipuð í samræmi við stjórnarskrá og lög. Þess vegna eigi ráðherra að hafna álitinu og sjá til þess að nefndin verði endurskipuð og gefi út nýtt álit.

Unnur gerir ráð fyrir að farið verði yfir málið í allsherjarnefnd. „Ég hef velt því upp hvort hægt sé að senda málið til baka og laga nefndina en ég hef ekki alveg komist að niðurstöðu um hvort það sé fær leið. En þetta verður væntanlega rætt í þinginu á næstu dögum.“

Viðtalið í heild má heyra í spilaranum hér að ofan.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV