Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir brotið á þúsundum

02.10.2018 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brotið er á þúsundum útlendinga sem starfa á íslenskum vinnumarkaði. Þetta segir aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Hann segir samfélagið og yfirvöld hafa skellt skollaeyrum við ástandinu.

Í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld var fjallað um vinnumansal og slæma stöðu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Rætt var við fólk sem hafði komið til landsins á fölskum forsendum, verið hlunnfarið og bjó við slæmar aðstæður. Einhverjir voru látnir vinna tímunum saman fyrir mun lægri laun en Íslendingar í sama starfi. 

„Það kemur ekkert á óvart þarna. Þarna eru nokkur ágæt dæmi um þá einbeittu brotastarfsemi sem við sjáum viðgangast á íslenskum vinnumarkaði. Dæmin eru bara því miður mikið fleiri,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. 

Eftirspurn eftir fólki til starfa er mikil og starfsmannaleigur hafa aukið umsvif sín undanfarin ár. Útlendingar sem starfa hér á landi eru um tuttugu og fimm þúsund talsins og hafa aldrei verið fleiri. Hægt er að færa rök fyrir því að þetta fólk haldi hjólum íslensks atvinnulífs gangandi og keyri hagvöxt áfram. 

„Það er mjög algengt að það sé verið að brjóta á þessum einstaklingum. Það er allt frá launaþjófnaði, bara klassískum, yfir í mjög einbeitta brotastarfsemi þar sem það er verið að vanvirða vinnuverndarreglur, okra á húsaleigu og taka alls konar gjöld af fólki. Og verstu tilfellin eru svo náttúrlega hreint mansal, því miður,“ segir Halldór.

 Samfélagið og yfirvöld hafi skellt skollaeyrum við þessu ástandi. 

„Það er lítill pólitískur áhugi eða skilningur á málinu. Það náttúrlega smitar þá inn í allt stjórnkerfið og síðan til alls almennings sem að einhvern veginn lokar svolítið augunum gagnvart þessari brotastarfsemi. Auðvitað eru til heiðarleg fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði, sem betur fer, en þetta er allt of algengt. Þetta er svona ómenning sem þessi erlendu fyrirtæki komu með inn hérna fyrst og íslensk fyrirtæki hafa verið að taka upp. Við erum ekki að tala um tugi, við erum ekki að tala um hundruð, við erum að tala um þúsundir einstaklinga sem er einfaldlega verið að fara illa með og brjóta á.“ 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV