Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir bréf Katrínar boða mikla réttarbót

11.04.2019 - 08:18
Úr umfjöllun Kveiks um Margréti Estheri Erludóttur
 Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson
Bréf Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til Þroskahjálpar boðar mikla réttarbót, að mati Gísla Tryggvasonar lögmanns Margrétar Estherar Erludóttur, sem hefur barist árangurslaust fyrir því að fá sanngirnisbætur vegna vanrækslu og illrar meðferðar á fósturheimilum í æsku.

Fjallað var um sögu Estherar og baráttu hennar fyrir réttarbót í Kveik. Í bréfinu sem Katrín sendi Þroskahjálp greinir hún frá því að í undirbúningi sé lagafrumvarp sem geri kleift að ljúka uppgjöri sanngirnisbóta vegna vistunar fatlaðra barna á stofnunum sambærilegum Kópavogshæli. Þó yrði ekki farið inn á svið einkaheimila, en það er ástæða þess að Margrét hefur ekki fengið neinar bætur. 

„Já ég tel að skjólstæðingur minn eigi skýran rétt á sanngirnisbótum vegna Auðkúlu I vegna þess að þar liggur fyrir skýrsla sem leggja má til grundvallar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða sem sett var inn í lögin út af Landakotsmálin. En út af öllum hinum heimilunum og stofnununum sem skjólstæðingur minn var á, þá held ég að þetta sé mikil réttarbót fyrir hana og aðra í þessari stöðu, “ segir Gísli. 

- Það er tekið fram að ekki hafi verið farið inn á svið einkaheimila?

„Það er eiginlega eini fyrirvarinn sem ég geri við þetta bréf og ég vænti þess að stjórnvöld hafi samráð við þá sem eru í forsvari þessa hóps sem á um sárt að binda vegna þessa. Ég held að það sé ekki í samræmi við mannréttindasáttmála og stjórnarskrá að mismuna þeim sem voru vistaðir á vegum stjórnvalda á einkaheimilum.“