Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir Bjarta framtíð hafa farið á taugum

15.09.2017 - 09:22
Brynjar Níelsson. - Mynd: Skjáskot / RÚV
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftlitsnefndar Alþingis, efast um þá skýringu fulltrúa Bjartrar framtíðar að trúnaðarbrestur vegna máls Hjalta Sigurjóns Haukssonar hafi sprengt ríkisstjórnina. „Ég held að hún sé að springa út af allt öðrum hlutum,“ sagði Brynjar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem hann tókst nokkuð hart á við þáttastjórnandann Sigmar Guðmundsson.

„Ég held að hún sé bara að springa út af því að menn eru farnir á taugum út af litlu fylgi í skoðanakönnunum. Menn standast aldrei mótbyr, menn fara alltaf á taugum. Það er bara vandamálið hjá sumum flokkum – að geta ekki staðið í lappirnar. Enda eru þetta oft ekki neinir flokkar, þetta er bara einhver hópur manna sem hefur ekkert bakland og hefur ekkert súbstans til að standa í þessu og fer bara á taugum,“ hélt hann áfram.

Brynjar sagði að markmið Viðreisnar og Bjartrar framtíðar væri að hífa upp fylgið í hugsanlegum kosningum. „Sjálfstæðisflokkurinn á að sitja með þetta í fanginu. Þessir flokkar hafa engu að tapa, er það?“ sagði hann.

Hvorki leyndarhyggja né samsæri í gangi

Brynjar sagði að búið væri að afvegaleiða umræðuna um uppreist æru. „Öll þessi umræða snýst um einhverja leyndarhyggju og eitthvað samsæri, það er ekkert svoleiðis í gangi og hefur aldrei verið. Menn eru að reyna að fara eftir eðlilegum stjórnsýslureglum og eðlilegum reglum um vernd persónuupplýsinga og málið er farið að snúast um eitthvað allt annað,“ sagði Brynjar.

Hann sagði ekki óeðlilegt að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði látið Bjarna Benediktsson forsætisráðherra einan vita af því að faðir hans hefði skrifað undir meðmæli fyrir Hjalta Sigurjón, enda hefði Bjarni verið settur dómsmálaráðherra um það leyti sem málið var afgreitt í fyrra.

Eins sagðist hann ekki skilja í hverju trúnaðarbresturinn gagnvart Óttari og Bjartri framtíð ætti að hafa falist. Hann hafi upplýst þá um bréfið á mánudag, þótt hann hafi ekki sagt þeim nákvæmlega hvaða mál það varðaði og hversu lengi hann hafði vitað af því.

„Það getur vel verið að menn hafi viljað vita þetta. Það bara skiptir engu máli í mínum huga. Það á ekki að vera ástæða til að rjúka úr stjórnarsamstarfi. Það er það sem ég er að segja. Ég vil auðvitað helst fá að vita alltaf allt um allt,“ sagði Brynjar, en benti á honum þætti það ábyrgðarleysi að ganga út úr ríkisstjórn þegar stór mál væru til umræðu, meðal annars fjárlagafrumvarp. „Ábyrgð okkar er að hafa starfhæfa ríkisstjórn, ekki hlaupa undan merkjum,“ sagði hann.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Brynjar í spilaranum hér að ofan.

RÚV verður með aukafréttatíma í sjónvarpi klukkan 12 á hádegi í dag.