Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Segir banka hafa farið að lögum

06.10.2011 - 08:32
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að bankarnir hafi algjörlega farið eftir lögum um endurútreikning á gengislánum og að Háskóli íslands hafi staðfest að aðferð bankanna sé rétt.

Birna sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að sett hefðu verið lög um hvernig bankarnir hefðu átta að reikna út þessi erlendu lán. Bankarnir hefðu farið eftir þeirri aðferðarfræði og Háskólinn hefði staðfest að útreikningur á húsnæðislánum væri réttur hjá bönkunum. Bankarnir hefðu reiknað þetta eins og um óverðtryggt lán hefði verið að ræða og þar sé líka ákveðin sanngirni að þeir sem tekið hefðu óverðtryggt eða verðtryggt lán á þessum tíma að þau séu reiknuð með sömu aðferðarfræði. Þetta væri niðurstaðan.

Hægt væri að hafa á þessu ýmsar skoðanir og þessi hópur vildi halda öðru fram og héldi fram að lögin sem sett hefðu verið væru ekki sanngjörn. Útreikningurinn miðað við þau væri ekki sanngjarn.

Birna segir að gagnrýni Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á bankana í stefnuræðu sinni á Alþingi hafi verið ósanngjörn. Þar sagði forsætisráðherra að tölur bankanna sýndu ofurhagnað, þeir ættu að lækka vexti og skila einhverju af hagnaðinum aftur til samfélagsins.

Birna segir að bankarnir hafi fellt niður mörg lán. Hún sé með dæmi um sértæka skuldaaðlögun hjá hjónum sem búi í 120 fermetra íbúð, sem hafi verið komin með 70 milljónir króna í lán. Hjá þeim hafi verið afskrifaðar 37 milljónir. Verið sé að tala um miklar afskriftir eignarhaldsfélaga, en það séu einnig miklar afskriftir og stór hlutföll á þessu sviði.

Ef skoðað sé hvað Íbúðalánasjóður sé búinn að gera miðað við bankana, sé þetta ósanngörn gagnrýni. Einnig ef hugsað sé til þess að þegar bankarnir, í þeim tilvikum sem þeir hafi getað hækkað lánasöfn sín, þá sé það að stærstum hluta, allavega í Íslandsbanka, tekið í gegnum rekstrarreikninginn og borgaðir af því fullir skattar. Fjármálafyrirtæki og bankar hafi borgað af því 70 milljarða í opinber gjöld frá hruni. Þannig sé ríkið að fá mikið tilbaka. Það sé verið að gefa vaxtaafslætti tímabundið, verið sé að bjóða ágætis kjör í bönkunum. Bankarnir hafi verið að láta viðskiptavini njóta hluta þessa hagnaðar.