Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir atvinnuástandið varla verða mikið betra

07.03.2017 - 22:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atvinnuástandið verður varla mikið  betra segir forstjóri Vinnumálastofnunar. Um tuttugu þúsund erlendir starfsmenn séu núna á landinu en miðað við áætlanir þurfi að flytja inn þúsundir starfsmanna til viðbótar.

 

Uppsveifla er á vinnumarkaði og endurspeglast atvinnuástandið  í því.

„Ég held að almennt sé hægt að segja að það sé mjög gott. Það er mikil eftirspurn eftir vinnuafli og atvinnuleysi lítið, þannig að betra verður það nú varla mikið,“ segir Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar.

Hann segir atvinnuástandið hafa farið batnandi ár frá ári, atvinnuleysi á síðasta ári hafi verið 3% og útlit sé fyrir að á nýbyrjuðu ári verði það enn minna.

„Eftirspurnin er fyrst og fremst í þessum greinum sem hafa verið í miklum vexti, ferðaþjónustu og byggingariðnaði og svo framvegis, en staðan er nú sú að það vantar að skapa störf fyrir sérfræðinga og háskólamenntað fólk, sem er auðvitað að fjölga á vinnumarkaðnum líka, svo að það má segja að þar séu sóknarfæri.“

Að sögn Gissurar er atvinnuleysið mest meðal ófaglærðra. Sem dæmi um fjölmennar ráðningar má nefna að Isavia ræður í sumar 260 manns í þjónustustörf, einkum vopnaleit og um hundrað manns verða ráðnir til Fríhafnarinnar og segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia að vel hafi gengið að ráða Íslendinga í þessi störf og koma þeir flestir af höfuðborgarsvæðinu. Um 20 þúsund erlendir starfsmenn eru hér á landi núna,  sem er 10-11% af vinnuafli og er það óvíða meira, en ljóst er að þeim mun fjölga.

„Okkur sýnist að það sé þörf fyrir, ég held að það sé óhætt að segja þúsundir til viðbótar við þá sem hér eru, miðað við öll þau áform sem eru uppi, framkvæmdir og vöxt í ferðaþjónustunni, þá leysum við ekki úr því nema með verulegum innflutningi á vinnuafli.“

Gissur segir spurn eftir atvinnuleyfum fer vaxandi frá fólki utan EES og starfsmanna  verði leitað  á svæðu frá Rússlandi, Úkraínu og Asíu.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV