Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir ákvörðun byggja á vísindalegum grunni

19.02.2019 - 21:59
Mynd:  / 
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, segir að ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar sé í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Leyft verður að veiða árlega að hámarki 209 langreyðar og 217 hrefnur samkvæmt ákvörðun ráðherra sem var kynnt í dag en hún gildir til næstu fimm ára. 

„Við höfum haft þá stefnu að nýta náttúruauðlindir með sjálfbærum hætti á grunni vísindalegrar ráðgjafar. Þessar veiðar eru á vísindalegum grunni. Þær eru sjálfbærar, þær eru undir eftirliti, þær standast og eru í takt við alþjóðleg lög og svo framvegis. Ég tel að grunnurinn undir ákvörðunina sé ágætlega undirbyggður og það er á þeim grunni sem ég stend við þessa ákvörðun,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra.

Vinstri græn hafa gagnrýnt hvalveiðar á undanförnum árum og oftar en einu sinni samþykkt landsfundarályktun þessa efnis. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur einnig lýst því yfir á Alþingi að hún telji að hvalveiðar séu ekki sjálfbærar. Kristján segir að málið sé vissulega umdeilt.

„Það eru skiptar skoðanir um þetta en þetta er eitt af þeim verkefnum sem er á verkefnaskrá og á borði þess ráðuneytis sem ég stýri um þessar mundir og það er mitt að taka þá ákvörðun sem ég hef nú tekið,“ segir Kristján. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV