Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir aðgerðarleysi í markaðsmálum dýrt

21.02.2017 - 12:07
Mynd með færslu
Sjávarútvegur er 42% útflutningsins. Mynd: Rúv
Neytendur í útlöndum virðast ekkert hafa fundið fyrir verkfalli sjómanna, segir stjórnarformaður Sjávarklasans. Nauðsynlegt sé að beina markaðsátaki beint að neytendum. Mikil verðmæti hafi farið í súginn í verkfallinu en mögulega glatist meiri verðmæti vegna aðgerðarleysis í markaðsmálum.

 

Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Sjávarklasans, fjallar á heimasíðu klasans um hvaða lærdóm megi draga af verkfalli sjómanna.

„Það sem við lærðum kannski fyrst og fremst var kannski að það varð engin sérstök umræða um íslenska fiskinn hjá neytendum úti. Við vissum af því að söluaðilar höfðu sagt að þeir þurftu að fylla upp í með fiski frá öðrum löndum, en heyrðum engar umkvartanir neytenda, hvorki á samfélagsmiðlum né annars staðar. Þannig að við fórum að velta því fyrir okkur, eigum við okkur enga ímynd, er íslensk ímynd í sjávarútvegi erlendis svona veik? Og þá kemur auðvitað á daginn að við höfum aldrei tekið samtalið við neytendur beint og það er það sem við í rauninni erum að leggja til, að skoða hvort við getum gert ekkert ósvipað og Norðmenn hafa gert á síðustu árum,“ segir Þór. 

Hann segir að Norðmenn hafi náð góðri stöðu á markaði með fisk undir heitinu „Norge", Dönum hafi tekist vel með markaðssetningu á svínakjöti og Nýsjálendingum með lambakjöt. Hann segir að aðgerðarleysi með íslenskan fisk geti verið dýrt og dýrara eftir því sem aðrar þjóðir efli ímynd sína sem matvælaframleiðendur. Sjómannaverkfallið hafi vissulega verið dýrt.

„Vinnustöðvun getur verið mjög dýr, en aðgerðarleysi er mjög dýrt líka.“

Þór segir að miðað við það sem Norðmenn hafa gert, megi gera ráð fyrir að markaðs- og kynningarmál vegna íslenskra sjávarafurða geti kostað röskan milljarð króna á ári.

„Við nefnum möguleikann á að taka hluta af veiðigjaldinu í þetta ef það eru hagsmunir skattgreiðenda líka að standa fyrir því, það má nefna ýmsar leiðir.“

Hann segir að farið verði í að reyna að koma á slíku átaki.

„Það munum við klárlega gera, við höfum mikinn áhuga á því,“ segir Þór Sigfússon.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV