Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir aðgerðapakkann ekki tryggja réttindi verkafólks

11.03.2020 - 10:09
Silfrið.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir frumvarp félagsmálaráðherra til starfskjaralaga bjóða upp á „ríkulegt hlaðborð nýstárlega undankomuleiða fyrir brotlega atvinnurekendur." Mynd: RÚV
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í gær, tryggi ekki réttindi verkafólks. Hún segist hafa miklar áhyggjur af því að blása eigi til „bólu í ferðamannabransanum“.

Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðir vegna efnahagslægðar sem búist er við vegna fækkunar ferðamanna í ljósi kórónaveirunnar. Gjöld á ferðaþjónustu verða lögð niður og frestur veittur til skila á sköttum og gjöldum. Þá verður opinberum framkvæmdum flýtt til að búa til atvinnu strax fyrir þá sem hugsanlega missa vinnuna í ferðaþjónustu.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í fréttum í gær, að ekki sé nóg að ríkisstjórnin hafi samráð við fjármálafyrirtæki varðandi aðgerðir til varnar efnahagslífinu, stjórnvöld hefðu einnig átt að hafa samráð við fulltrúa launafólks.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók undir þetta í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Já ég held að ég geti sannarlega verið sammála þessu,“ segir Sólveig Anna. „Þegar ég skoða málflutning fjármálaráðherra og þeirra sem töluðu í gær, þá er frekar sjokkerandi að sjá að þrátt fyrir að þeim eigi að vera vel ljóst hvaða afleiðingar uppsveiflan hafði á aðstæður launafólks, hér var til dæmis fluttur inn mjög mikill fjöldi af erlendu vinnuafli, en þegar það kom hingað til Íslands beið þess ekki einhver dásamlegur heimur góðs lífs. Þvert á móti. Hér gekk fólk inn í húsnæðismarkað sem var algjörlega hömlulaus, fólk var upp á atvinnurekendur komið með húsnæði, Eflingar-meðlimir verða fyrir gríðarlegum launaþjófnaði, við erum að innheimta vangoldin laun upp á hundruð milljóna, vanvirðandi framkoma eins og kemur fram í gögnum frá ASÍ og rannsóknum sem hafa verið gerðar. Þetta er mjög alvarlegt en þetta ástand hefur fengið að vaxa og grassera. Og þegar ég sé að hér eigi, um leið og aðstæður leyfa, að blása aftur til einhverrar svona bólu í ferðamannabransanum, þá fyllist ég miklum áhyggjum.“

„Grafalvarlegt mál“

Hvað áttu við með því?

„Ég hef bara svo miklar áhyggjur af því að stjórnvöld, sem hafa ekki sýnt nægan vilja til þess að tryggja það sem bíður fólks sem hingað flytur til þess að knýja áfram hjól atvinnulífsins, að það sé allt með eins góðum hætti og hægt er að hugsa sér.“

Þannig að þú vilt meina það að þegar menn eru að koma fram með aðgerðapakka fyrir atvinnulífið, og hafa ferðaþjónustuna í huga, að þá þurfi á sama tíma að vera búið að tryggja réttindi og umhverfi fólksins sem vinnur í atvinnugreininni? Þetta hangir saman að þínu mati?

„Þetta hangir bara alveg saman. Og þetta er ekki léttvægt. Þarna erum við bara að tala um grafalvarleg mál. Og ég tek undir með Drífu Snædal og með ASÍ að það er bara fremur sjokkerandi að sjá hvernig er hægt að líta framhjá þessu enn eina ferðina.“

En nú er þetta ríkisstjórn sem teygir sig frá vinstri til hægri, finnst þér það sjást í þessum aðgerðapakka?

„Nei. Ég sem fulltrúi vinnandi fólks og sem fulltrúi verka- og láglaunafólks get bara sagt það að nei, ég get ekki séð það í þessum aðgerðapakka. En við getum alltaf vonað að fólk átti sig á því að það þurfi að bregðast við með öðrum hætti og lagfæri sinn málflutning og sínar nálganir í samræmi við það,“ segir Sólveig Anna.