Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir að umskurður geti verið hættuleg aðgerð

07.02.2018 - 11:19
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Umskurður á drengjum er ekki hættulaus aðgerð, að sögn barnaskurðlæknis. Í aðgerðinni felst að öll forhúð er skorin af nýfæddum drengjum. Þráinn Rósmundsson, barnaskurðlæknir, segir að slíkar aðgerðir í trúarlegum tilgangi hafi verið lagðar af á Landspítala fyrir nokkrum árum.

„En varðandi hættuna þá eru mjög margar hættur sem eru samfara þessu. Sem dæmi um það þá munu vera um tvö hundruð börn sem deyja á ári hverju í Bandaríkjunum, eða að minnsta kosti var þetta þannig fyrir fimm árum síðan. Vegna þess að þeim blæðir út, hreinlega, og þarna er þá aðallega um að ræða börn sem eru með blæðingasjúkdóm sem ekki er vitað fyrir,“ sagði Þráinn í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Þetta er svo sem ekki stór aðgerð en hún er ekki hættulaus,“ segir hann.

Rabbínar í Evrópu gegn íslensku frumvarpi

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, ásamt átta þingmönnum, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um bann við umskurði drengja í trúarlegum tilgangi. Lögum samkvæmt er umskurður á kynfærum stúlkna bannaður en ekki er kveðið á um slíkt bann við umskurði drengja. Samkvæmt breytingunni myndi liggja allt að sex ára fangelsi við líkamsárás sem veldur tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu, með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti.

Umskurður tíðkast í nokkrum trúarbrögðum, þar á meðal hjá múslimum og gyðingum. Evrópskir rabbínar hafa hvatt til þess að íslensk stjórnvöld verði beitt þrýstingi til að koma í veg fyrir að frumvarpið verði samþykkt. Þráinn segir að umskurður sé ekki algeng aðgerð hér á landi. „Á meðan ég var yfirlæknir á barnaskurðdeildinni á Landspítala þá lagði ég þessar aðgerðir af nema í læknisfræðilegum tilgangi.“ Hann segir koma um eitt tilvik á ári hér á landi þar sem læknisfræðilegar ástæður séu að baki slíkri aðgerð. 

Framkvæma aðeins aðgerðir af læknisfræðilegum ástæðum

Þetta eru viðkvæm mál. Í hvaða stöðu eruð þið læknar þegar menn vísa til trúarbragða? „Við erum læknar og læknar fást við að lækna sjúkdóma, við erum ekki trúarleiðtogar. Við gerum ekki svona aðgerðir nema af læknisfræðilegum ástæðum. Við höfum hreinlega ekki heimild til þess,“ segir Þráinn. 

Segir 40 lækna hafa hrakið rök fyrir umskurði

Töluverð umræða um þessar aðgerðir hefur verið meðal lækna um allan heim. Árið 2013 lagði bandaríska barnalæknafélagið til að aðgerðir þessar yrðu hluti af heilbrigðiskerfinu og greiddar af hinu opinbera. „Það hefur ekki náð fram að ganga. Sennilega því það er ekki læknisfræðileg ástæða fyrir þessu. Þá fóru þeir að bera fyrir sig ýmsum læknisfræðilegum ástæðum.“ Sama ár sendu 40 læknar í Vestur-Evrópu frá sér fræðigrein þar sem öll læknisfræðileg rök með umskurði voru hrakin. Þráinn er einn höfunda greinarinnar. „Í heims-literatúrnum hefur verið vitnað 200 til 300 sinnum í þessa grein þannig að þetta er heitt mál,“ segir hann.

Dæmi um að foreldrar leiti til útlanda

Þegar foreldrar vilja láta umskera syni sína hér á landi reyna læknar að útskýra sína hlið málsins. Þráinn segir að umræðurnar taki oft dágóðan tíma, enda andstæð sjónarmið. Dæmi eru um að foreldrar hafi leitað út  fyrir landssteinana til að láta gera slíkar aðgerðir. 

Frétt uppfærð klukkan 14:36 - Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt. Hún var upphaflega: 200 deyja árlega eftir umskurð í Bandaríkjunum.