Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir að tafabætur skipti hundruðum milljóna

04.12.2018 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason/RÚV - RÚV
Nýtt sjúkrahótel Landspítalans við Hringbraut var afhent fyrir helgi þrátt fyrir að vera óklárað. Ágreiningur milli verktaka og verkkaupa hefur staðið yfir í um eitt og hálft ár en nú á að vísa honum til gerðardóms. Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala segir að tafarbætur vegna verksins skipti tugum til hundruðum milljóna króna. Áætlað er að afhenda húsið í byrjun næsta árs, um einu og hálfu ári eftir áætlun.

„Það er búið setja gerðardómssamning milli aðila og aðilar munu skila gögnum fljótt og vel inn til gerðardómsins og von á því að niðurstaða hans liggi fyrir innan nokkura mánaða. Þetta snýst um fjárkröfur. Verktakinn telur sig hafa fjárkröfur áhendur okkur að sama skapi höfum við sem verkkaupi verulegar fjárkröfur í tafarbótum sem skipta tugum ef ekki hundruðum milljóna,“ segir Gunnar.

Deilurnar hafa staðið í um eitt og hálft ár. Verktakinn telur sig einnig hafa fjárkröfur á hendur Nýjum landspítala vegna þess að hönnun verksins hafi verið ábótavant en fyrirtækið hafnar því. Þá greinir verktaka og verkkaupa á um hver ber ábyrgð á tímasetningu umsaminna verkloka og lokafrágangi á húsinu og lóðinni í kring. „Dagsektirnar byrjuðu að tikka í verkinu fyrir þó nokkuð mörgum mánuðum og nema allt að 900 þúsund krónum á dag þannig það er um verulegar fjárhæðir að ræða,“ bætir Gunnar við.

Sjúkrahótelið átti að vera tilbúið í fyrrasumar en nú lítur út fyrir að húsið verði afhent til rekstrar í byrjun janúar. „Það var sameiginlegt mat að það væri betra að verkkaupi tæki að sér að klára lokafráganginn á húsinu. Enda hafði verkframvindan verið óveruleg síðustu mánuði,“ segir Gunnar. 

Hvern ætlið þið að fá í það verk? „Nú tökum við fyrir samninga við þá aðila meðal annars sem voru undirverktakar í verkinu og meistarar á húsinu og sjáum hvernig þessu framvindur. Þetta eru það óverulegir verkþættir að það þarf ekki að bjóða þá út.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV