Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir að stjórnvöld hafi ekki átt annan kost

21.02.2019 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að stjórnvöld hafi ekki átt annan kost en að aflétta innflutningstakmörkunum á kjöti. Heimilt verður að flytja inn hrátt ófrosið kjöt frá löndum innan EES, samkvæmt drögum að frumvarpi ráðherra. Mótvægisaðgerðum er ætlað að auka matvælaöryggi.

Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í gær og fela í sér breytingar á lögum um matvæli og dýrasjúkdóma. Það er liður í því að bregðast við dómum Hæstaréttar og EFTA dómstólsins, um að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn EES-samningnum með innflutningstakmörkunum. 

30 daga frestur ekki haft þýðingu

Frumvarpið heimilar innflutning á hráu ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum frá 1. september næstkomandi. Skilyrði fyrir innflutningi afurða utan EES eru óbreytt. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að ekki sé kunnugt um tilfelli þar sem 30 daga frystitími hafi haft áhrif á að sjúkdómar og sýktar afurðir berist hingað. Þrátt fyrir að frysting minnki magn kampýlóbakter í alifuglakjöti hafi hún lítil áhrif á aðrar sjúkdómsvaldandi örverur eða sýklalyfjaónæmar bakteríur. 

Matvælastofnun fær víðtækari heimildir

Samhliða kynntu stjórnvöld mótvægisaðgerðir til að auka matvælaöryggi og vernda búfjárstofna. Gert er óheimilt að dreifa alifuglakjöti nema matvælafyrirtæki geti sýnt fram á að kjötið sé ekki sýkt. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn þessu. Þá er Matvælastofnun veitt heimild til að skoða og taka sýni úr búfjár- og sjávarafurðum sem fluttar eru til landsins. Stofnuninni er jafnframt heimilt að annast eftirlit þegar rökstuddur grunur er um að matvæli séu heilsuspillandi. 

Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpinu sem tryggi hag neytenda með auknu vöruúrvali og samkeppni. Bændasamtökin lýsa miklum vonbrigðum og segja að ráðherra hafi gefist upp í baráttu fyrir lýðheilsu og íslenskum búfjárstofnum. 

Nauðsynlegt að bregðast við 

„Ég held að menn þurfi nú að anda með nefinu. Við höfum á okkur þrjá dóma um það að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert með réttum hætti innleiðingu alþjóðlegra skuldbindinga sem við undirgengumst,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðhera. 

Hann segir að þetta hafi í raun verið eini kosturinn. „Íslensk stjórnvöld hafa velt þessu á undan sér í mörg mörg ár og aldrei komist að annarri niðurstöðu en þessari sem sjá má í dómum. Við verðum með einhverjum hætti, segi ég, að mæta því, því að Hæstiréttur Íslands er meira að segja búinn að dæma okkur til ótakmarkaðrar skaðabótaskyldu,“ segir Kristján Þór. 

Hann bindur miklar vonir við mótvægisaðgerðir í frumvarpinu sem eigi að styrkja stöðu innlendrar matvælaframleiðslu og veita eftirlitsaðilum ríkari heimildir en áður. 

Vonast eftir tillögum frá bændum

„Málið er í samráðsferli og ég vænti þess að bændur sem og aðrir komi þá með uppbyggjandi hugmyndir um það hvernig þeir sjá íslensk stjórnvöld takast á við þá stöðu sem uppi er að við séum með þrjá dóma á bakinu um það að við höfum ekki staðið við þær skuldbindingar sem gerðar voru,“ segir Kristján Þór Júlíusson.