Segir að Stefán eigi að hætta vegna spillingar

25.02.2019 - 19:05
Borgarfulltrúi Miðflokksins segir að borgarritari hljóti að hætta störfum eftir skrif hans um kjörna borgarfulltrúa. Hún segir málið snúast um spillingu og vísar ásökunum á bug. Hún segir að bókun hennar um að borgarlögmaður hylmi yfir með löbrotum, sé pólitískur og ófaglegur, ekki alvarlegar ásakanir, heldur sannleikur. Borgarritari segist ekki ætla að bregðast við ummælum borgarfulltrúans.

Bréfið eigi að breiða yfir spillingarmálin

Stefán Eiríksson borgarritari fór hörðum orðum um nokkra borgarfulltrúa í bréfi fyrir helgi, sagði þá eitra starfsumhverfið með hegðun sinni og framgöngu. Borgarstjóri sagði í gær að hávært ákall hafi verið um að líta ekki undan hegðun kjörinna fulltrúa. Oddvitar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins hafa sagt að málið sé rammpólitískt. Það segir Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, líka. 

„Borgarritari er fyrst og fremst að breiða yfir spillingarmálin í borginni með því að beina athyglinni að kjörnum fulltrúum,” segir hún. 

Getur ekki séð hvernig hann getur setið fundi

Um sjötíu starfsmenn hafa leitað til mannauðssviðs borgarinnar vegna slæms vinnuumhverfis, tveir hafa hætt og Starfsmannafélagið hefur beðið um vinnufrið og að störf þeirra séu ekki gerð tortryggileg. Stefán hefur sagt að hann hafi aldrei upplifað annað eins ástand. 

„Ég get ekki séð hvernig sá aðili geti setið á fundum með kjörnum fulltrúum borgarinnar,” segir Vigdís. 

Gagnrýnir gjarnan embættismenn

Vigdís hefur oft gagnrýnt störf embættismanna í gegnum tíðina, ekki síst þegar hún sat á Alþingi. Fyrir tveimur vikum bókaði hún í borgarráði um Braggamálið að það væri með ólíkindum hvað borgarlögmaður virtist leggja sig í líma við að hylma yfir lögbrot sem framin voru og að áður fyrr hafi borgarlögmaður unnið faglega og óháð pólitík.

VH: „Þetta eru ekki alvarlegar ásakanir, þetta er bara sannleikurinn sem blasir við öllum.”

Finnst þér þetta eðlileg orðræða?

VH: „Að sjálfsögðu. Að benda á sannleikann. Segja það sem satt er í málinu. Koma upp um spillinguna. Koma upp um meðvirknina með Degi B. Eggertssyni. Það er ekki lengur vinnufriður í ráðhúsinu.” 

Sérð þú enga ástæðu, eða þið í minnihlutanum, að reyna að lægja öldurnar, mögulega með því að breyta kannski orðræðunni eða eitthvað slíkt? 

VH: „Til hvers á að gera það?” 

Til þess að fá vinnufrið. 

VH: „Ég hef góðan vinnufrið, það hafa allir vinnufrið í ráðhúsinu, við erum að uppræta um spillingu...”

Þú sagðir reyndar áðan að það væri ekki vinnufriður í ráðhúsinu. 

VH: „Ég sagði að það væri góður vinnufriður í ráðhúsinu. Ég sit borgarráðsfundi, forsætisnefndarfundi og annað og það er mjög óeðlilegt að embættismenn séu að blanda sér inn á hinn pólitíska vígvöll.”

Býst við svanasöng borgarritara

Spurð hvort hún telji að borgarlögmaður eigi að hætta, í ljósi bókunar hennar um störf hans, segist hún ekki hafa skoðun á því. 

„Ég er að tala um borgarritara og þetta viðtal snýst um borgarstjóra og borgarritara og ég var að segja að það gæti ekki annað verið en að þetta væri svanasöngur borgarritara hjá borginni, líklega síðasti ruslapokinn sem hann er að fara með úr ráðhúsinu fyrir Dag B. Eggertsson.”

Stefán Eiríksson segist í samtali við Fréttastofu ekki ætla að bregðast við ummælum Vigdísar. 

Ætlar með kosningarnar til dómsmálaráðuneytisins

Það hefur gustað um borgarstjórn á kjörtímabilinu, eins og þessar vendingar bera með sér. Vigdís kærði síðustu sveitarstjórnarkosningar til sýslumanns eftir að Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að borgin hefði brotið persónuverndarlög með sendingum til tiltekinna hópa fyrir kosningar þar sem þeir voru hvattir til að kjósa. Sýslumaður vísaði kærunni frá fyrir helgi, en Vigdís ætlar að fara með málið lengra, á borð dómsmálaráðuneytisins. Það segist hún ætla að gera á næstunni og segir að borgin og starfsmenn hennar sem komu að málinu hafi stundað kosningasvindl. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi