Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir að múslimar séu varla manneskjur

26.11.2017 - 18:03
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Flokksmaður í Svíþjóðardemókrötum hefur verið kærður til lögreglunnar fyrir hatursræðu vegna ummæla sem hann lét falla á landsfundi flokksins um helgina. Þar sagði hann að múslimar væru ekki fólk að öllu leyti, en þeir sem láta af trú sinni eigi möguleika á því. Ummælin voru send út í beinni útsendingu í sænska ríkissjónvarpinu.

Martin Strid sagði á flokksþingi Svíþjóðardemókrata í gær að hægt væri að skilgreina fólk á kvarða á bilinu 1 til 100. Múslimar væru neðstir á kvarðanum og teldust tæplega vera manneskjur. 

Þeir sem væru efst á skalanum væru 100 prósent fólk eins og við skilgreinum venjulegt fólk. Á hinum endanum, við núllið, væri fólk sem væru múhamedanar, sem er gamalt orð í skandinavísku yfir múslima og telst í dag vera niðrandi. Fólk sem láti af íslamstrú gæti hins vegar náð því aftur að teljast vera almennilegt fólk.

Ummælin, sem voru send beint út í sænska ríkissjónvarpinu, hafa valdið miklu fjaðrafoki í Svíþjóð. Strid hefur reynt að draga í land og segir að ummæli sín hafi verið klaufaleg. 

Aron Emilsson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur fordæmt ummælin og ritari flokksins krefst þess að Strid yfirgefi flokkinn. 

Flokkur Svíþjóðardemókrata var stofnaður árið 1988 og var fyrst kosinn á þing 2010. Hann hefur frá stofnun verið þjóðernissinnaður og haft á stefnuskrá sinni að fækka beri innflytjendum og flóttamönnum og flokksfélagar hafa af andstæðingum sínum verið kallaðir kynþáttahatarar. 

Jan Hjärpe, prófessor í íslömskum fræðum við háskólann í Lundi, segir að ummælin séu heimskuleg og að öllu leyti sambærileg við orðfæri nasista á sínum tíma um gyðinga.

Lögreglan í Norrköping hefur staðfest að búið sé að kæra Strid fyrir hatursorðræðu. Talsmenn annarra flokka í Svíþjóð hafa brugðist hart við ummælum Strid í fjölmiðlum um helgina.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV