Segir að kalla mætti sendiherratal spillingu

29.11.2018 - 12:37
Mynd:  / 
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir að ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, um sendiherraskipanir, samkvæmt frétt DV, mætti kalla spillingu. Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, segir að tal þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins um konur gefi til kynna að þeir hafi ekki hlýtt á það sem fram fór þegar þeir sátu rakarastofuráðstefnu Alþingis.

„Þarna eru menn að segja kannski ýmislegt sem er kannski óviðeigandi og fólk ætti að hugsa aðeins um hvernig það orðar hluti,“ segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata. „Það eru ákveðin mál sem tengjast sendiherrum sem sýna fram á mikla frændhygli og mætti kalla spillingu. Það þarf að kanna það nánar. Ég vil ekki vera að dæma ummælin neitt frekar því þau dæma sig sjálf.“ Þar vísar hann til ummæla Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, sem samkvæmt frétt DV sagðist hann eiga inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir að skipa Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í stöðu sendiherra.

Þorsteinn Víglundsson, varafomaður Viðreisnar og fyrrverandi jafnréttisráðherra, segir að miðað við tal þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins hafi þeir ekki hlustað á það sem fram fór á rakarastofuráðstefnu þingsins. „Svona ummæli valda gríðarlegum vonbrigðum, hvort sem um er að ræða ummæli Gunnars Braga eða annarra sem þarna er vísað til,“ segir Þorsteinn. „Alþingi stóð sérstaklega fyrir svokallaðri rakarastofuráðstefnu í upphafi þessa máls. Rakarastofan snýst í raun og veru í einföldu máli um að karlmenn standi með konum, líka og sérstaklega í karllægri umræðu í lokuðu rými. Búningsklefatal hefur það stundum verið kallað eða rakarastofutal. Þarna hafa menn augljóslega ekki verið að hlusta á það sem þar fór fram.“

„Menn hljóta að þurfa að hugsa sinn gang svolítið hraustlega því það skiptir ekki máli hvort áfengi var haft við hönd eða í lokuðu rými,“ segir Þorsteinn. „Þetta er einmitt við þetta tilefni sem við viljum að karlar standi upp fyrir konur og beiti sér gegn svona umræðu.“

Hópur þingmanna úr Samfylkingu, Viðreisn, Pírötum og VG hefur sent forsætisnefnd Alþingis bréf þar sem þess er óskað að forsætisnefnd taki málið upp og sendi það til siðanefndar Alþingis. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi