Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir að efnahagsuppsveiflunni sé lokið

03.01.2019 - 19:34
Mynd:  / 
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastóri Samtaka atvinnulífsins, telur að efnahagsuppsveiflunni sem notið hefur síðustu ár, sé lokið. Hann var í viðtali í myndveri í fréttum RÚV í kvöld. Þar var hann spurður hvort blikur væru á lofti í atvinnulífinu á Íslandi en ekki hafa verið eins margar hópusagnir og í fyrra síðan 2009.

Vinnumálastofnun bárust tilkynningar um fimmtán hópuppsagnir árið 2018. 864 misstu vinnuna í hópuppsögnum í fyrra. Mestu munaði um tvær hópsagnir í desember þegar WOW sagði upp fjölda fólks og þegar bakaríið Kornið sagði öllu starfsólki sínu upp.

„Ég held að þetta sé órækur vitnisburður þess að hagkerfið er að breyta um takt og þessi mikla uppsveifla, efnahagsuppsveifla sem við höfum búið við undanfarin ár... henni er lokið,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Búast menn við miklum uppsögnum á þessu ári?

„Við sjáum það á könnun sem Gallup hefur gert fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands fjórum sinnum á ári undanfarin 17 ár, að allt frá hruni hafa fyrirtækin á Íslandi verið að bæta við sig fólki á hverjum einasta ársfjórðungi á hverju einasta ári. En núna er gert ráð fyrir að talsverð fækkun sé í kortunum, því miður.“

„Það er mikilvægt að við metum stöðuna heildstætt. Við höfum farið í gegnum miklar launahækkanir á undanförnum árum. Sem dæmi þá er íslenskt atvinnulíf borið uppi af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og þau hafa meira en tvöfaldað launagreiðslur sínar frá árinu 2010. Við þekkjum það öll að það eyðist sem af er tekið og við leggjum ríka áherslu á það að við metum stöðuna kalt núna. Það gagnast engum að við förum fram úr okkur eins og við höfum gert á síðustu árum og áratugum á toppi hagsveiflunnar.“

Ertu með öðrum orðum að segja að ef launahækkanir verði of miklar að það verði gripið til uppsagna?

„Það gæti orðið óumflýjanlegt hjá mörgum fyrirtækjum en við erum ekki ennþá komin á þann stað. Við þurfum að ræða þetta af yfirvegun og ábyrgð. Við höfum ennþá tíma til að létta á þeirri óvissu sem liggur eins og mara á atvinnulífinu. Það gerum við með því að ná skynsamlegum kjarasamningum.“

Hvað sérðu fyrir þér framundan á næstu vikum? Telur þú að það verði gripið til verkfalla?

„Á verkföllum tapa allir og við skulum ekki gefa okkur að það sé óumflýjanleg niðurstaða. Við eigum núna samtal við Starfsgreinasambandið, Landsamband verslunarmanna og iðnaðarmenn og munum halda því áfram að miklum krafti næstu tvær vikur eða svo. Ég er ennþá vongóður um það að okkur muni takast að ná saman á endanum.“

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV