
Seðlabankinn mátti ekki sekta Samherja
Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans taldi að Samherjamenn hefðu brotið gjaldeyrislög á árunum 2009 til 2013. Þá var tæplega hálfur milljarður króna lagður inn á erlenda bankareikninga Samherja í 34 greiðslum meðan gjaldeyrishöft voru í fullu gildi. Samherjamenn neituðu sök og Sérstakur saksóknari taldi ekki tilefni til rannsóknar þar sem engin heimild er til að refsa fyrirtækju fyrir slík brot.
Þegar Sérstakur saksóknari hafði tvívegis endursent Seðlabankanum kærur á hendur Samherja tók bankinn sig til og lagði fimmtán milljóna króna stjórnvaldssekt á Samherja. Henni undir stjórnendur Samherja ekki. Þeir bentu á bréfaskipti sín við Seðlabankann. Þar kom fram að engin rannsókn væri í gangi á þeim tíma. Þetta taldi Samherji til marks um að rannsókn hefði verið látin niður falla og taldi Seðlabankanum því ekki heimilt að taka málið upp aftur án nýrra upplýsinga. Samherji kærði því sektarákvörðunina og bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur tóku undir með fyrirtækinu.
Auk þess sem sektin er felld úr gildi þarf Seðlabankinn að greiða 1,2 milljónir í málskostnað fyrir Hæstarétti og fjórar milljónir í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Seðlabankinn rannsakaði fjölda mála vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum. Á þriðja tug þeirra var felldur niður árið 2016 þegar uppgötvaðist að það hafði farist fyrir að láta viðskiptaráðherra skrifa undir reglur Seðlabankans um gjaldeyrismál. Að því er fram kom í Kveik fyrir skemmstu höfðu tugir sérfræðinga saksóknara eytt þúsundum klukkustunda í málin, „sem öll urðu að engu. Þar með varð ómögulegt að fá að vita hverjir brutu lögin og hverjir ekki“.
Uppfært 14.56.