Seðlabankinn grípur inn í þrjá daga í röð

09.01.2019 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Seðlabankinn hefur gripið inn í á gjaldeyrismarkaði síðustu þrjá virka daga. Þetta staðfestir Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri Seðlabankans við fréttastofu. Venju samkvæmt eru upphæðir ekki gefnar upp fyrr en að tveir dagar eru liðnir frá því að viðskiptin eru gerð. Bankinn hefur því einungis birt upplýsingar um að hann hafi keypt 806 milljónir íslenskra króna fyrir erlendan gjaldeyri á föstudaginn, en upplýsingar um umfang viðskipta í gær og á mánudag eru ekki tiltækar. 

Seðlabankinn hefur ekki útskýrt þessa miklu virkni sína á markaðnum, en í yfirlýsingu peningastefnunefndar við síðustu vaxtaákvörðun var fjallað um áform stjórnvalda að losa síðasta hluta aflandskrónueigna sem lokuðust inni við innleiðingu fjármagnshafta í kjölfar fjármálakreppunnar. 

Peningastefnunefnd sagði að ekki væri eðlilegt að úrlausn slíks fortíðarvanda lækki gengi krónunnar og því myndi Seðlabankinn grípa inn í á gjaldeyrismarkaði í samræmi við fyrri yfirlýsingar. Hann myndi einnig horfa til þess að vísbendingar eru um að gengislækkun krónunnar frá því í júní í fyrra hafi fært raungengið niður fyrir jafnvægisgildi sitt.

Þá hefur fréttavefurinn Kjarninn heimildir fyrir því að meðal ástæðna fyrir þrýstingu á veikingu krónunnar, sé sala erlendra aðila á verðbréfum og skuldabréf-um, fyrir háar fjárhæðir. Meðal þeirra erlendu sé fyrirtækið Eaton Vance Management sem átti ríkisskuldabréf og hlutabréf, skuldabréf og kröfur á íslensk fyrirtæki fyrir 67 milljarða í júlí í sumar. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV