Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Séð á annan tug dauðra hvala í dag

08.09.2013 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ hefur séð á annan tug dauðra grindhvala í fjörum í morgun við Fróðárrif við Ólafsvík og Rif. Nú er flóð á staðnum og því getur verið að fleiri dýr séu dauð sem Kristinn kom ekki auga á.

Um 100 hvalir syntu á land í fjöruna við Rif frá klukkan sex í gærkvöldi. Kristinn segir að tugir dýra hafi drepist en íbúar á svæðinu skáru hluta hvalanna í gærkvöldi. Kristinn segir að það hafi verið mannúðarmál að drepa hvalina, sem komust ekki út úr höfninni. „Það var skelfilegt að horfa upp á þetta," segir hann í samtali við fréttastofu RÚV.

Hann segir það verkefni dagsins að fjarlægja dýrin úr fjörunum. Afar sjaldgæft er að viðlíka hópur hvala syndi til lands en á 9. áratug síðustu aldar synti hópur hvala í fjörur á svæðinu. „Ég held að þetta sé ein af þessum ráðgátum hjá vísindamönnum hvers vegna hvalir gera þetta. Ég held það viti enginn hvers vegna hvalir synda til lands."