Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Saurgerlar fundust ekki í vatnsbólinu

02.07.2018 - 17:29
Hólmavík Strandir Vestfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Saurgerlar fundust í neysluvatni úr krana á Hólmavík á fimmtudag, en ekki í vatnsbóli staðarins. Ingibjörg Benediktsdóttir oddviti Strandabyggðar, segir ekki miklar líkur á að mengunin sé í vatnsbólinu.

Til öryggis séu íbúar þó beðnir að sjóða neysluvatn þar til niðurstaða mælinga úr vatnsbóli liggur fyrir síðar í vikunni. Ingibjörg sagði í Síðdegisútvarpi Rásar 2 að fólk þurfi ekki  að hafa áhyggjur af þessu. „Þetta er varúðartilkynning sem okkur er ráðlagt að senda út af heilbrigðiseftirlitinu. Mengunin fannst ekki í vatnsbólinu hjá okkur. Hún fannst í vatni úr krana sl. fimmtudag og við höfum ekki fengið staðfestingu á því enn, hvort gerlarnir séu í vatnsbólinu. Við sendum þá tilkynningu aftur um leið og við fáum upplýsingar um það" segir Ingibjörg.

Minna en í bæjarlæknum

„Þetta er í raun minna magn en ef þú drekkur vatn úr bæjarlæknum. Þetta er kannski ekki hættulegt fyrir þá sem eru heilbrigðir, en ef til vill gæti mengunin haft áhrif á eldri íbúa og þá sem eru viðkvæmir eða sjúkir. Svo má taka fram að hér er matvælaframleiðsla og þar þarf að taka sýni í hverri viku og rannsaka. Það var gert á miðvikudag í síðustu viku og það reyndist ómengað sýni.  Þannig að það eru ekki miklar líkur á því að mengunin sé þar, eða í vatnsbólinu".
 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV