Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sauli Niinistö kosinn forseti Finna

05.02.2012 - 20:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Íhaldsmaðurinn Sauli Niinistö verður næsti forseti Finnlands eftir sigur í seinni umferð forsetakosninganna í dag. Niinistö fékk tæplega 63% atkvæða en andstæðingur hans Pekka Haavisto, frambjóðandi græningja, fékk rúmlega 37%.

Þetta er í samræmi við síðustu skoðanakönnun sem birt var á fimmtudaginn. Þá átti Niinistö að fá ríflega 60% atkvæða en Haavisto rúm 30%. Engin breyting verður á stefnu Finna í Evrópumálum, sem er eini málaflokkurinn þar sem forsetinn hefur áhrif, annars er um viðhafnarembætti að ræða.

Niinistö er, líkt og Haavisto, mjög áfram um frekari samruna við ESB. Stjórnmálaskýrendur í Finnlandi segja að reynsla Niinistö frá því hann var fjármálaráðherra 1996 til 2003 hafi léð framboði hans meiri trúverðugleika. Þá hafi sú staðreynd að Haavisto er samkynhneigður og í skráðri sambúð með karlmanni frá Ekvador ekki tryggt honum stuðning eldri Finna, sem séu íhaldsamari en þeir yngri.