Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sauðfé verði fækkað um 20%

21.08.2017 - 15:37
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stefnt er að því að fækka sauðfé um allt að 20% hér á landi til lengri tíma í því skyni að draga úr framleiðslu á lambakjöti. Þetta kemur fram í hugmyndum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að leysa vanda sauðfjárbænda, en þær voru kynntar atvinnuveganefnd Alþingis nú í hádeginu á fundi sem Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, fór fram á.

Þorgerður Katrín sagði í samtali við fréttastofu að leysa þurfi vandann með langtímaaðgerðum til að koma í veg fyrir að þetta verði endurtekið efni. Þetta verður meðal annars gert með uppkaupum ríkisins á ærgildum, til þess að fækka sauðfé og draga úr framleiðslu.

Þá verði einnig komið til móts við bændur sem hafi orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu þannig að þeir geti haldið áfram, og einnig settir fjármunir í frekari rannsóknir og þróun.

Þarf að endurskoða búvörusamninginn

Hluti af því að draga úr framleiðslunni er að endurskoða búvörusamninginn, þar sem hann sé framleiðsluhvetjandi. „Þá er alveg ljóst að um leið og við vinnum eftir búvörusamningnum þá munum við fara í ákveðna endurskoðun eða biðja endurskoðunarnefndina sem er að störfum að koma með tillögur til að hjálpa til að leysa við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir.“

Þorgerður Katrín segir að áfram verði unnið að markaðsstarfi erlendis þó að dregið verði úr framleiðslunni. Hún vill þó ekki koma að nýju á útflutningsskyldu á lambakjöti - það komi aðeins niður á skattgreiðendum.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir tillögurnar skynsamlegar að mörgu leyti, en þó standi enn út af að taka á birgðasöfnun kjötsins, sem aukist enn meira þegar ám verður slátrað í auknum mæli. „Við svona aðstæðum er brugðist í Evrópusambandinu. Þess vegna kemur á óvart að ráðherra Viðreisnar skuli ekki vilja slíkar leiðir, eins og útflutningsskyldu eða önnur inngrip á markað.“ Hann bendir á að útflutningsskyldan kosti ríkið ekkert en uppkaup á gripum kosti töluverða fjármuni.

Hugmyndirnar verða kynntar forsvarsmönnum sauðfjárbænda í dag.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV