Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sátt í kjaraviðræðum í Noregi

05.05.2015 - 16:24
Mynd: RUV Arnar Páll / RUV Arnar Páll
Svigrúm til launahækkana í iðnaðinum gefur tóninn fyrir almennar launahækkanir í Noregi. Á þessu ári er miðað við að launahækkanir verði um 2,7 prósent. Víðtæk sátt er meðal aðila vinnumarkaðarins um norska samningakerfið.

Á sama tíma og það logar stafna á milli í kjaramálum hér heima virðist ríkja sátt um hvernig staðið er að kjarasamningum í Noregi. Norðmenn hafa fyrir löngu sameinast um að launahækkanir umfram það sem samkeppnisgreinarnar þola gangi ekki til lengdar án þess að illa fari. Horft er til þess að ef launakostnaður fer upp úr öllu valdi í iðnaði veiki það stöðu samkeppnisgreinanna. Steinar Holden, hagfræðiprófessor við Háskólann í Osló, segir að kjarasamningar byggi á svokölluðu frontfagsmódeli eða undanförum.

 

Það er iðnaðurinn sem er undanfarinn sem þýðir að iðnaðurinn semur fyrst. Niðurstaðan í þeim samningum gefur svo tóninn fyrir aðra hópa sem semja í kjölfarið. Niðurstaðan í ár er að svigrúmið sé um 2,7 prósent. Þegar aðrir hópar semja hjá ríkinu, sveitarfélögunum og á almenna vinnumarkaðinum er niðurstaðan yfirleitt mjög nálægt því sem samið var um í byrjun innan iðnaðarins.

„Tilgangurinn með þessu er að það eigi að vera iðnaðurinn, sem er í samkeppni við útlönd, sem slái taktinn í öðrum kjarasamningum. Svigrúmið í samkeppnisgreinum ráði því sem efnahagslífið þolir og þær launahækkanir nái líka til allra annarra," segir Steinar Holden.

Fara ekki strax í skotgrafirnar

Í Noregi er það ekki svo að rétt áður en samningaviðræður hefjast rísi menn upp úr skotgröfunum og leggi fram sínar kröfur. Umfangsmikil undirbúningsvinna á sér stað á milli kjarasamninga. Sérstök sambandsnefnd hefur verið við lýði allt frá sjötta áratugnum þar sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvalda koma saman og fara yfir stóru línurnar í efnahagsþróuninni. Svokölluðu tækninefnd eða útreikningsnefnd gegnir líka mikilvægu hlutverki. Henni var komið á fót 1965. Nefndina skipa fulltrúar vinnumarkaðrins. Formaður nefndarinnar er Ådne Cappelen. Hann segir að meginverkefni hennar sé að meta launaþróunina.

„Við leggjum líka mat á þróunina í norsku efnahagslífi og horfunar í öðrum löndum. Við gerum líka verðbólguspá en okkar hlutverk er fyrst og fremst að varpa ljósi á stöðuna á vinnumarkaði hvað varðar laun. Nefndin leggur ekki fram tillögur um hvert svigrúmið er. Það er hlutverk aðila vinnumarkaðarins að meta þær upplýsingar sem koma fram í skýrslum reikninefndarinnar," segir Ådne Cappelen.

Laun hækka að meðaltali um 2.7%

Eins og kom fram í Speglinum í gær sáust ekki kröfur um hærri laun í kröfugöngunum í Noregi á 1. maí. Í skýrslunni má sjá hver meðallaunin eru og hve miklar launahækkanir hafa verið síðustu ár. Í iðnaði voru meðallaunin á mánuði um 626 þúsund krónur. Laun kennara voru að meðaltali 736 þúsund krónur svo eitthvað sé nefnt. En þetta er að sjálfsögðu meðaltöl og laun sem hækka á þessu ári um að minnsta kosti 2,7 prósent.

Talsverð miðstýring einkennir kjarsamninga í Noregi þar sem Alþýðusambandið í samráði við atvinnurekendur leggur línurnar. Hefð er fyrir því að kjarasamningar gilda til tveggja ára og allir semja á sama tíma. Fyrst er samið á almenna markaðinum og í kjölfarið kemur hinn opinberi geiri. Stein Reegård, sem fer með samningamál fyrir norska Alþýðusambandið, segir að sjaldan hafi verið eins mikil sátt um norska samningakerfið og nú.

„Þetta kerfi er meginskýringin á því að okkur hefur tekist að halda atvinnuleysinu niðri eða að minnsta kosti halda því lágu. Mörg lönd í Evrópu glíma við 10 prósenta atvinnuleysi. Það er meðal annars vegna þess að launamyndunin er ekki í lagi og þar verður oft launahækkunarhringiða. Með okkar kerfi náum við samræma launahækkanir og horfa á heildina," segir Stein.

Sátt um norska kerfið

Atvinnuleysið í Noregi er nú þrjú til fjögur prósent. Þó engin lög eða samþykktir gildi um norska samningsmódelið eru aðilar sammála um fara eftir því.

„Þetta er góð málamiðlun því allir skilja að það væri slæmt fyrir efnahagslífið ef það væri stöðug ísamkeppni um launahækkanir," segir Stein. Hann segir að Norðmenn hafi reynslu af slíku en það sé lögu liðin tíð.

Þó að kjarasamningar séu til tveggja ára er samið um launahækkanir árlega og nú er nýlokið milliuppgjöri upp á 2.7 prósent. Rolf Andreas Negård, sem fer með samningamálin fyrir Samtök atvinnulífsins í Noregi, segir að með því að semja árlega um launahækkanir sé samið um hækkanir sem endurspegil getu atvinnulífsins til að hækka launin hverju sinni.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV