Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sársaukafullt að horfa á táknmyndir þrælahalds

Mynd: Samsett mynd/RÚV / Samsett mynd/RÚV

Sársaukafullt að horfa á táknmyndir þrælahalds

18.08.2017 - 15:09

Höfundar

Heimsbyggðin hefur fylgst með viðbrögðum Bandaríkjaforseta á síðustu dögum við ofbeldi og kynþáttaólgu í landinu. Minnismerki sem halda á lofti minningu hershöfðingja og forystumanna Suðurríkjanna í þrælastríðinu blandast inn í þann fréttaflutning en minnismerkin er að finna víða um landið. Í Víðsjá var rætt við Lilju Hjartardóttur stjórnmálafræðing um minnismerkin.

Borgarastríðið situr í þjóðinni

Borgarastríðið í Bandaríkjunum, sem einnig er oft nefnt þrælastríðið, stóð á árunum 1861 til 1865. Þar tókust á hermenn sambandstjórnarinnar í norðri og ellefu suðurríkja sem lýstu yfir sjálfstæði frá Bandaríkjunum.

Norðurríkin með Abraham Lincoln sem forseta vildu leggja niður þrælahald, en þau voru að mörgu leyti þróaðari hvað iðnað og þéttbýlismyndun varðaði á meðan Suðurríkin byggðust á vinnuframlagi fjögurra miljóna þræla. Norðrið tók ekki í mál að suðrið skyldi kljúfa sig frá Bandaríkjunum og eftir að stríðinu lauk var þrælahald í landinu afnumið og eining Bandaríkjanna tryggð.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Með árás suðrríkjanna á Fort Sumter í Charleston hófst Þrælastríðið 1861.

Á ekki að koma á óvart

Lilja Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur, bjó um árabil í Bandaríkjunum og fylgist vel með stjórnmálum í þessu stóra landi. „Við þurfum í raun ekki að vera mjög hissa á því að þarna sé deilt um þessi minnismerki,“ segir Lilja. „Þetta eru hundruðir minnismerkja sem einkum er að finna í Suðurríkjunum en þó víðar í landinu. Þau eru til minningar um almenna hermenn, herforingja og stjórnmálaleiðtoga Suðurríkjanna og þegar horft er yfir söguna er ljóst að þessar styttur hafa orðið til á ákveðnum tímabilum.“

En táknin eru fleiri. Lilja rifjar upp skelfileg fjöldamorð í Charleston 17. júní árið 2015 þegar ungur maður myrti níu blökkumenn í sögufrægri kirkju þeirra í borginni. „Í beinu framhaldi af því þá ákvað borgarstjórinn að taka niður gamla Suðurríkjafánann. Það sýndi að Bandaríkjamenn hafa ekki gert upp þessa sögu,“ segir Lilja og bendir á að enn sé hart deilt um það hvað borgarastríðið hafi snúist um að sínum tíma.

„Núna loksins á síðustu dögum höfum við orðið vör við einhvern áhuga yfirvalda í einstaka borgum að taka niður þessar styttur.“

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Wikimedia Commons
Aðdáun á málstað og hetjum suðrríkjanna í þrælastríðinu er ýmiss konar.

Fjölmargar en trufla ekki alla

Enginn virðist hafa skýra yfirsýn yfir hve mörg minnismerkin eru sem um ræðir. „Maður sér tölur frá 700 og upp í 1500. Sumir svartir íbúar í þessum borgum segja að stytturnar skipti þá engu máli. Þetta eru bara einhverjir karlar á hrossum. Aðrir segja að það hafi bókstaflega verið sársaukafullt að horfa á þessar táknmyndir þrælahaldsins árum saman. Fjölmargir vilja fegra þessa sögu og hetjur Suðurríkjanna,“ segir Lilja, en deilurnar í Charlottesville í Virginíu snérust meðal annars um styttu af hershöfðingjanum Robert E. Lee.

Lilja bendir á að ekki allar styttur sem upphefja hetjur Suðurríkjanna í stríðinu séu mjög gamlar. „Það eru til dæmis til samtök sem heita Dætur sambandsríkjanna (e. Daughters of the Confederacy) sem hafa verið að láta reisa slíkar styttur, jafnvel eftir árið 2000.“

 

Fegurð og menningararfur 

Í nýlegum Twitterfærslum tjáði Donald Trump sig um fegurð og menningarlegt verðmæti þessara umdeildu minnismerkja. „Þegar forseti Bandaríkjanna, sem er líka forseti 40 miljóna svartra Bandaríkjamanna, leggur að jöfnu menn eins og George Washington og Robert E. Lee þá hlýtur það að vera eins og blaut tuska framan í tugi miljóna Bandaríkjamanna.“

Kemur reglulega upp

Á þeim 152 árum sem liðin eru frá formlegum lokum þrælastríðsins þá hefur aðdáun á málstað Suðurríkjanna gosið upp aftur og aftur. „Fyrst eftir þrælastríðið þá kom svona tíu ára friðsælt tímabil þegar bandaríski herinn var í Suðurríkjunum og verndaði fyrrum þræla á svæðinu. Þarna voru fjórar miljónir þræla í raun settar út á guð og gaddinn. Þeir fengu ekki land og ekkert tók við þeim nema framlenging á þrældómnum. Síðan þegar herinn fór þá komu fram grimmar reglur um samskipti kynþáttanna, hinn svokallaði Svarti kóði og Jim Crow lögin. Þar kom fram þessi mikla stjórnun á svörtum borgurum landsins. Í kringum 1920 fjölgaði þessum styttum aftur og svo enn aftur þegar mannréttindahreyfing svartra náði flugi á sjötta áratugnum. Þegar þarf að halda svörtum niðri þá eru þetta viðbrögðin að halda fram málstað Suðurríkjanna og fegra sögu þeirra.“

Láta standa eða setja á safn

Hugmyndir manna um að taka allar slíkar styttur niður og setja þær inn á söfn eru líka umdeildar í Bandaríkjunum. Sumir segja að þá sé verið að hvítþvo söguna og einangra hana. Aðrir halda því fram að inni á söfnum sé hægt að miðla sögunni í betra samhengi.

„Bandaríkjamenn eiga eftir að taka þessa umræðu og gera upp arfleifð þrælastríðisins en deilurnar um það hvað stríðið snérist um eru enn til staðar. Ég held að það seint nást einhver sátt um hvernig eigi að umgangast þessa sögu,“ segir Lilja að lokum.

Viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan, en einnig er bent á útvarpsþættina Ameríska drauminn sem Lilja gerði á Rás 1 um páskana. Þættirnir eru aðgengilegir í Hlaðvarpi RÚV.