São Paulo - Freetown - Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

São Paulo - Freetown - Reykjavík

16.02.2017 - 21:30

Höfundar

Í Konsert kvöldsins förum við á Womex tónlistarhátíðina sem fór fram í Santiago de Compostela á Spáni í október sl. og heyrum upptökur þaðan með Bixiga 70 frá São Paulo í Brasilíu og síðan Kondi Band frá Sierra Leone. Að lokum er svo boðið upp á tónleika Hjaltalín í Silfurbergi á Iceland Airwaves 2013.

Womex stendur fyrir World-Music Export og þar er það sem er kallað Heimstónlist (World music) í aðalhlutverki.
Þetta er allskonar músík sem ekki er beint hægt að flokka sem Popp eða rokk, Jazz eða eitthvað annað – þó hún sé þetta allt og meira til. Hún er ansi fjölbreytt tónlistin sem lendir í þessum Heimstónlistar-potti, þjóðlagatónlist, jazz, blús, fönk, danstónlist ýmiskonar frá öllum heimshornum – HEIMStónlist.

Womex fæddist í Berlín árið 1994 og þessi fimm daga hátíð hefur frá stofnun ferðast milli borga. Árin 2009 – 2011 var hún haldin í Kaupmannahöfn í tengslum við Roskilde Festival, Copenhagen Jazz festival og ferðamálasamtökin Wonderful Copenhagen. Hátíðin fór fram í Berlín 1994, 1999 og 2000. Í Brussel 1995, Marseille 1997, í Stokkhólmi 1998, Rotterdam 2001, Essen 2002 og 2004, Í Newcastle 2005 og í Sevilla 2003, 2006, 2007 og 2008, í Thessaloniki 2012, Cardiff 2013 og í Santiago de Compostela 2014 og í fyrra, en Budapest 2015. Á næsta ári verður hátíðin haldin í Póllandi.

Womex gengur út á alþjóðlegt samstarf, sanngjörn viðskipti, tónleika, kvikmyndasýningar, og kynningu á músík allstaðar að úr heiminum og á hátíðinni myndar fólk tengs og sambönd. Tilgangurinn er sá að tónlist fólksins sem kemur þarna fram fái að heyrast sem víðast. Á Womex kemur fólk frá fjölmiðlum og tónlistarhátíðum um allan heim og hljómsveitir sem koma fram á Womex fá margar hverjar tækifæri til að ferðast um allan heim og spila.

RBB í Þýskalandi sem er hluti af þýska Ríkisútvarpinu, og BBC voru með upptökulið á Womex í ár og í Konsert í kvöld heyrum við tónleika tveggja sveita sem voru hljóðritaðar á hátíðinni. Fyrst er það Bixiga 70  frá Brasilíu og hinsvegar Kondi Band frá Sierra Leone.

Bixiga 70 er mikið partíband, 10 manna band með slagverki og blæstri. Sveitin hefur vakið talsverða athygli heima í Brasilíu og mun víðar líka, og hfur spilað með fólki eins og Tony Allen, Seun Kuti & Egypt 80 og Antibalas Afrobeat Orchestra. En nafnið Bixiga 70 hlýtur líka að vísa í nafn hljómsveitar Fela Kuti – Africa 70.

Hjartað í Kondi Band er Sorie Kondi sem er enginn unglingur og hefur ekki átt sjö dagana sæla. Hann er blindur og var búinn að eyða megninu af ævinni spilandi á götum út í vestur-Afríkuríkinu Sierra Leone þar sem fátækt er útbreidd  og lífið ansi erfitt eftir langt borgarastríð og tilheyrandi hörmungar.

En Sorie Karoma dró fram lífð með því að spila á Kondi-ið sitt úti á götum höfuðborgarinnar Freetown. Hann spilaði á þessa þumla-hörpu sem Kondi ergegnum lítinn gamlan gítarmagnara sem hann bar á bakinu.

Hann söng um líf sitt og erfitt hlutskipti eftir að fjölskyldan hans flúði öll í borgarastyrjöldinni uppúr 1990, en dag einn var hann svo uppgötvaður af DJ í bandaríkjunum sem var ættaður frá Sierre Leone. Hann sá upptöku Sorie Kondi á Youtube. DJ þessi, Chief Boima hafði upp á Sorie og þeir fóru að spila saman sem Kondi Band og hafa farið víða. Kondi Band var á Womex síðasta haust.

Síðast en ekki síst heyrum við svo frábæra upptöku Rásar 2 frá Iceland Airwaves 2013, úr Silfurbergi með Hjaltalín.

Konsert er á dagskrá Rásar 2 á fimmtudagskvöldum kl. 22.05

Umsjón: Ólafur Páll Gunnarsson
[email protected]

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fyrst Prins Póló og svo Mumford & Sons

Popptónlist

The XX, Alma og Retro Stefson

RHCP og Elíza Newman

Popptónlist

Gauti 27 og Dylan 25