Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Sannleiksnefnd um Lagarfljótsorminn

16.08.2012 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur skipað 13 manna sannleiksnefnd sem á að meta hvort það sé sjálfur Lagarfljótsormurinn sem sést á myndbandi sem vakti heimsathygli síðasta vetur. Alþingismaður og prestur eru á meðal þeirra sem skipaðir voru í nefndina.

Fyrir fimmtán árum var efnt til keppni um bestu myndirnar af Lagarfljótsorminum. Verðlaunaféð, hálf milljón króna, var aldrei greitt út enda þóttu engar myndir sýna sjálfan orminn. Þáverandi bæjarstjórn hét því hins vegar að hver sá sem næði slíkri mynd fengi verðlaunaféð. Málið lá kyrrt þangað til í vetur að Hjörtur Kjerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum, kvikmyndaði undarlegt fyrirbæri í Jökulsá í Fljótsdal sem liggur út í Lagarfljót. Það líkist ormi á sundi og vakti svo mikla athygli að margar erlendar sjónvarpsstöðvar sendu tökulið til Íslands að gera þætti um myndbandið og orminn. 

Í sumar gerði Hjörtur svo tilkall til áðurnefndra verðlauna og var málið var tekið fyrir á fyrsta fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs eftir sumarfrí. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að hún efaðist ekki um tilvist ormsins. En vörslumenn opinbers fjár, eins og það er kallað, geti ekki greitt út verðlaunaféð án þess að málið fái vandaða umfjöllun. Skipuð var 13 manna sannleiksnefnd málsmetandi fólks en í nefndinni eru meðal annars sveitastjórnarmenn, náttúrufræðingur, prestur og alþingismaður. Nefndin fær ekki laun henni er ætlaður rúmur tími eða til loka kjörtímabilsins. Það gæti því orðið að kosningamáli hvort lýsa eigi því yfir að ormurinn hafi náðst á mynd. 

Eftirtalin voru skipuð í nefndina:
Formaður: Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar 
Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs og ábúandi við fljótið
Sigrún Blöndal, bæjarfulltrúi og áhugamaður um Lagarfljótsorminn
Katla Steinsson, bæjarfulltrúi og ferðamálafrömuður
Skúli Björn Gunnarsson, íslenskufræðingur og forstöðumaður Gunnarsstofnunar
Skarphéðinn Þórisson, náttúrufræðingur og ljósmyndari
Hlynur Gauti Sigurðsson, landlagsarkitekt, borgarskógfræðingur og myndatökumaður
Rán Þórarinsdóttir líffræðingur
Magnús Skarphéðinsson skólastjóri og sérfræðingur í dulrænum fyrirbærum
Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir þjóðfræðingur og ljósmyndari
Lára G. Oddsdóttir sóknarprestur á Valþjófsstað
Valdimar Gunnarsson formaður félags áhugmanna um skrímslasetur
Jónína Rós Guðmundsdóttir alþingismaður.