Meirihluti nefndarinnar telur að myndband Hjartar Kjerúlf frá því í febrúar 2012 sýni sjálfan Lagarfljótsorminn. Sjö nefndarmanna töldu myndbandið sýna orminn, fjórir töldu svo ekki vera og tveir skiluðu auðu í atkvæðagreiðslu sem fram fór í dag.
Niðurstaðan var kynnt á Hreindýraveislu Ormsteitis á Fljótsdalshéraði í kvöld. Fljótsdalshérað hét hverjum þeim sem fangaði orminn á mynd eða myndband 500 þúsund króum og gerði Hjörtur, bóndi á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal, tilkall til verðlaunanna. Skömmu síðar lagði Sigurður Aðalsteinsson fram ljósmynd sem meirihluti nefndarmanna taldi ekki sýna sjálfan orminn.
„Myndband Hjartar Kjerúlf sýnir Lagarfljótsorminn. Ormurinn er til,“ sagði Stefán Bogi og uppskar mikið lófaklapp frá viðstöddum í Kornskálanum á Egilsstöðum í kvöld. Þá ályktaði nefndin einnig almennt um orminn og sagðist ekki efast um að í fljótinu byggi kvikindi sem vísindunum hefði ekki tekist að útskýra.
Það bíður bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að ákveða hvort farið verður að tillögu Sannleiksnefndar um að greiða Hirti Kjerúlf verðlaunin. Hann var ánægður með 50 þúsund króna viðurkenningu sem hann fékk frá samtökunum Þjónustusamfélagið á Héraði og ekki síður blómvöndinn sem hann sagði þann fyrsta sem hann hefði fengið á ævinni.
Myndbandið vakti mikla athygli. Milljónir manna hafa séð það á youtube og margar erlendar sjónvarpsstöðvar hafa sent tökulið til Íslands til að fjalla um Lagarfljótsorminn.
Sannleiksnefnd skipuðu:
Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi og formaður nefndarinnar
Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar
Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs
Anna Alexandersdóttir bæjarfulltrúi
Jónína Rós Guðmundsdóttir, fv. alþingismaður
Lára G. Oddsdóttir sóknarprestur
Rán Þórarinsdóttir líffræðingur
Hlynur Gauti Sigurðsson, landslagsarkitekt og myndatökumaður
Hulda Sigurdís Þráinsdóttir þjóðfræðingur
Dagur Skírnir Óðinsson félagsfræðingur
Þorvaldur P. Hjarðar svæðisstjóri
Magnús H. Skarphéðinsson skólastjóri
Arngrímur Vídalín miðaldafræðingur