Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sanngjarnt að ríkið taki þátt í kostnaði

28.10.2018 - 18:17
Það er sanngirnismál að ríkið greiði hálfan milljarð vegna framkvæmda á Sementsreitnum, segir bæjarstjórinn á Akranesi. Niðurrif Sementsverksmiðjunnar er langt komið og til stendur að fara í mikla uppbyggingu.

Fyrirhugað er að reisa 368 íbúðir auk verslunar- og þjónusturýmis á reitnum á næstu árum. Áður en ráðist er í þá uppbyggingu þarf að efla sjóvarnir og hækka Faxabraut, sem liggur meðfram reitnum við sjóinn. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir sanngjarnt að ríkið greiði fyrir það. „Faxabraut er þjóðvegur í þéttbýli. Hækkandi sjávarstaða kallar á það að við þurfum að verja þá byggð sem er fyrirhugað að rísi hér. Þá var Sementsverksmiðja ríkisins bygging sem ríkið kom hér upp og það er sanngirnismál, að okkar mati á Akranesi, að ríkið komi að því að greiða fyrir þann kostnað sem lýtur að því að hér geti verið reitur sem hægt er að nýta fyrir íbúðabyggð í framtíðinni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Niðurrifið er langt komið.

Náðist ekki samkomulag

Árið 2003 seldi ríkið Sementsverksmiðjuna til einkaaðila. Þá náðust ekki samningar milli ríkisins og bæjaryfirvalda á Akranesi um frágang á reitnum, ef starfseminni yrði hætt. Framleiðslu á sementi var hætt 2012 og í lok árs 2013 tók Akranes yfir eignarhald á stærstum hluta mannvirkja og lóða. Niðurrif er nú langt komið og hefur Akranesbær staðið straum af öllum kostnaði. „Það er búið að vera að biðja um aðkomu ríkisins að niðurrifi, kostnaði við að fjarlægja mannvirki hér í mörg, mörg ár og það hefur ekki skilað árangri enn sem komið er,“ segir Sævar. 

Áætlað er að heildarkostnaður við framkvæmdir á reitnum, niðurrif og uppbyggingu, verði um tveir milljarðar. „Við getum í raun hafið uppbyggingu íbúða nú þegar, snemma á næsta ári en þá þurfum við að vera með tryggt að Faxabrautin og sjóvarnir við Faxabraut verði að veruleika. Við erum ekki búin að setja fram kröfur um neitt annað en þetta á þessu stigi,“ segir Sævar.

 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV