Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sannfærandi og áhugaverð spennusaga

Mynd:  / 

Sannfærandi og áhugaverð spennusaga

06.02.2019 - 20:02

Höfundar

Spennusaga Lilju Sigurðardóttur, Svik, er hennar besta að mati Kolbrúnar Bergþórsdóttur gagnrýnanda Kiljunnar.

Nýjasta spennusaga Lilju Sigurðardóttur, Svik, gerist í hringiðu íslenskra stjórnmála. Aðalsöguhetjan, Úrsúla, fær boð um að taka sæti í ríkisstjórn Íslands skömmu eftir að hún flytur aftur til landsins eftir áralangt starf á hamfarasvæðum. Bókinni er lýst sem sögu um völd og valdaleysi, ofbeldi og þöggun.

Fjallað var um bókina í fyrsta þætti Kiljunnar eftir jól. „Þetta er bráðskemmtileg saga... það eru þarna mjög eftirminnilegar persónur,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir gagnrýnandi. Persónurnar eru sannfærandi og vekja samúð segir Sigurður Valgeirsson gagnrýnandi og honum þykir Lilju farast það vel úr hendi að segja spennusögu með kjölfestu í heimi stjórnmála. „Maður er kannski ekki hagvanur í ráðuneytum en þetta er allt mjög sannfærandi.“

Kolbrún segir að framvinda bókarinnar sé áhugaverð, þó hún hafi ekki fundið fyrir mikilli spennu. „Það sem henni tekst sem höfundi er að það eru allar þessar hliðarsögur og allar þessar persónur, það væri mjög auðvelt að ruglast á þeim – en það gerir maður ekki. Vegna þess að hún hefur alla þræði í höndum sér.“ Lilja er flinkur sögumaður bætir Sigurður við og sambönd á milli persóna skipti máli í framvindu sögunnar. „Það þjónar allt tilgangi.“ 

„Besta bók sem ég hef lesið eftir hana,“ segir Kolbrún að lokum.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ljóðmælandi í yfirburðarstöðu

Bókmenntir

Bullandi kaldhæðin sýn á ástina

Bókmenntir

Áhugaverður línudans milli sannleika og lyga

Bókmenntir

Lilja Sigurðardóttir hlaut Blóðdropann