Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sandy Hook foreldrar lögsækja Alex Jones

18.04.2018 - 07:06
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia/ Creative Commons/ Mic - Wikimedia/ Creative Commons
Foreldrar tveggja barna sem voru skotin til bana í árás í barnaskólanum Sandy Hook árið 2012 hafa höfðað meiðyrðamál gegn Alex Jones. Jones stjórnar útvarpsþætti í Bandaríkjunum og vefsíðunni InfoWars þar sem hann hefur haldið því statt og stöðugt fram að skotárásin hafi verið fölsuð og helber lygi.

Tuttugu börn, öll yngri en sjö ára, og sex starfsmenn skólans létu lífið í árásinni. Jones hefur haldið því fram að foreldrar barnanna væru leikarar sem hefðu verið ráðnir til að grafa undan rétti Bandaríkjamanna til að eiga skotvopn.

Leonard Pozner og Veronique De La Rosa, misstu son sinn Noah í árásinni. Hann var sex ára. Þau höfðuðu mál gegn Jones í Travis-sýslu í Texas, þar sem Alex Jones býr og starfar. Jones birti í apríl í fyrra myndskeið á vef sínum undir heitinu „Sandy Hook vampýrur afhjúpaðar,“ þar sem hann ýjaði að því að De La Rosa væri leikkona. 

Foreldrar barna sem létu lífið í skotárásinni í Sandy Hook og talað hafa opinberlega um reynslu sína hafa orðið fyrir áreiti, bæði á netinu og úti í samfélaginu, frá fólki sem trúir samsæriskenningum um árásina.

Í júní var kona í Flórída dæmd í fimm mánaða fangelsi fyrir að hóta Leonard Pozner lífláti bæði í síma og í tölvupósti. 

Foreldrarnir fara fram á eina milljón bandaríkjadala í miskabætur. BBC segir að foreldrarnir hafi ákveðið að ráðast í málaferli meira en fimm árum eftir árásina eftir að það varð þeim ljóst að Jones hygðist ekki láta af samsæriskenningum sínum.