Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sandur í Kópaskershöfn viðvarandi vandamál

18.04.2016 - 16:27
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Guðmundur Magnússon - Magnavík
Siglingasvið Vegagerðarinnar ber ábyrgð á því að höfnin á Kópaskeri er full af sandi að sögn rekstrarstjóra hafna í Norðurþingi. Skilningur sé á milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar um að eitthvað þurfi að gera en aðstæður séu þannig að engin framtíðarlausn sé í sjónmáli. Tíu bátar stunda nú grásleppuveiðar frá Kópaskeri sem er nærri hrygningarstöðvum grásleppunnar. Höfnin er skilgreind sem smábátahöfn og því ekki fær stærri skipum. Vandræði hafa orðið við að koma bátum til veiða á fjöru.

 

Náttúrulega aðstæður óhagstæðar

Ástandið er ekki nýtt af nálinni og mikil hreyfing er á sandinum í höfninni að sögn hafnarvarðar. Aðstæður frá náttúrunnar hendi eru að einhverju leyti sambærilegar við hafnir sem staddar eru nærri framburðarsvæði jökuláa. Ástandið hafi versnað eftir að Jökulsá á Fjöllum hljóp fyrir nokkrum árum. Fínlegur leir blandaður vikri berst fram með strönd Öxarfjarðar frá ósum jökulárinnar og erfitt hefur reynst fyrir dæluskip að ná sandinum upp. Guðmundur Magnússon hafnarvörður segir að í raun dælist bara upp svartur sjór og skoli út aftur. „Á árum áður leiddu komur stærri skipa af sér að rastir hafnarinnar hreinsuðu sig betur en nú er aðeins um smá rennu að ræða inn í höfnina og svæði á viðlegukantinum þar sem hægt er að tala um 4 metra dýpi,“ segir Guðmundur. Vandkvæðin felist ekki aðeins í að bátarnir sitji á kilinum í höfninni heldur dragi þeir mikla sanddrullu inn í síur og fari illa með vélbúnað bátanna.

Ábyrgð á framkvæmdum hjá Vegagerðinni

Þórir Örn Guðmundsson rekstrarstjóri hafna Norðurþings segir flotbryggjubót hafnarinnar vera nánast ófæra, þar sem legupláss er fyrir fjóra smábáta. „Vegagerðin sér ekki fram á að það sé ekki hægt að fara í neina framtíðarlausn, en sveitarfélagið getur ekki farið í þessar aðgerðir á eigin vegum,“ segir Þórir Örn jafnframt. Hann telur ákvarðanir um aðgerðir til skamms tíma liggja hjá siglingsviði Vegagerðarinnar og ráðuneytinu. Að sögn Þóris kom dýpkunarskip fyrir tveimur árum en litlar siglingabætur urðu af því. Talið sé að langarma gröfur geti leyst einhvern hluta vandans en það séu dýrar aðgerðir og ávinningurinn af þeim ekki í hendi. Engin fiskvinnsla er á staðnum og fáir bátar sem gera út frá Kópaskeri á ársgrundvelli.

Málið á frumstigi hjá Vegagerðinni

„Þetta er á frumstigi og ferlið langt að koma þessu inná Samgönguáætlun,“ segir Þórir Örn en sveitarfélagið hefur óskað eftir fundi með siglingasviði Vegagerðarinnar til þess að fara yfir málin. Það sé þó ekki venjan að sveitarfélög fari í framkvæmdir án þess að ríkið komi að þeirri ákvarðanatöku.

Dýpkun ekki á samgönguáætlun

Fyrir þinginu liggur frumvarp um Samgönguáætlun til fjögurra ára, frá 2015-2018, en hafnarframkvæmdir á Kópaskeri eru ekki þar inni í dag enda hefur ekki verið sótt um aðkomu ríkisvaldsins að viðhaldsaðgerðum þar. G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir ljóst að Vegargerðin taki ákvarðanir um framkvæmdir á vegum enda eigi Vegagerðin þá og beri ábyrgð á rekstri þeirra. Aftur á móti eigi sveitarfélögin hafnirnar og Hafnarsjóðirnir beri ábyrgð á þeim.

Engin einföld lausn til frambúðar

Sigurður Sigurðsson verkfræðingur á siglingasviði Vegagerðarinnar segir að það sé ljóst að það sé engin einföld aðferð sem leysi vandamálin í höfninni á Kópaskeri í eitt skipti fyrir öll. Þar verði að fara fram viðhaldsdýpkanir með nokkurra ára millibili því það sé óraunhæft að koma fyrir varnargörðum sem hindri að efnið komist inn í höfnina. „Það þarf að sækja um og fara í ferli til þess að komast inn á samgönguáætlun sem er samþykkt af Alþingi. Það er sveitarstjórnarinnar að þrýsta á um framkvæmdir og tímabært að þeir vilji funda því þetta er ferli sem tekur svolítinn tíma,“ segir Sigurður.

 

arnaldurmf's picture
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV