Sanctus úr Guðbrandsmessu

Mynd: RÚV / RÚV

Sanctus úr Guðbrandsmessu

31.08.2018 - 19:05

Höfundar

Sanctus úr Guðbrandsmessu (2003) eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.

Hildigunnur Rúnarsdóttir (f. 1964) er fædd inn í mikla söngfjölskyldu – foreldrar hennar voru meðal þeirra sem stofnuðu sönghópinn Hljómeyki, og systir hennar er Hallveig sem syngur einsöng á þessum tónleikum. Kórverk hafa því skiljanlega verið stór þáttur í tónsmíðastarfi Hildigunnar. Eitt stærsta verk hennar er Guðbrandsmessa, sem var frumflutt í Langholtskirkju vorið 2003 af Kór og kammersveit Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar.

Messan var samin í minningu Guðbrands Þorlákssonar biskups og var frumflutt í tilefni af hálfrar aldar afmæli Kórs Langholtskirkju. Í viðtali við Morgunblaðið í aðdraganda frumflutningsins sagði Jón verkið hafa farið langt fram úr væntingum sínum: „Það er ákaflega glæsilegt, í senn nútímalegt og sígilt og gerir miklar kröfur til flytjenda – en er jafnframt aðgengilegt hlustendum.“ Um Sanctus-kaflann sagði hann: „Það er mikill kraftur í þessum kafla og á köflum finnst manni vera í honum taktar frá suður-amerískri tónlist, með ljóðrænum millikafla, Benedictus, sem er ákaflega fallegt alt-sóló.“


Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV tóku í þriðja sinn saman höndum og gáfu landsmönnum kost á að ráða efnisskránni á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á nýju starfsári. Í þetta sinn gafst almenningi færi á að velja uppáhalds íslensku tónsmíðina sína í tilefni 100 ára fullveldisafmælis. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason.