Samvinna að lausn evrukreppu tókst ekki

03.07.2014 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöldum á evrusvæðinu mistókst að vinna í sameiningu að lausn evrukreppunnar. Það voru verstu afglöpin sem gerð voru í kreppunni, segir fyrrverandi seðlabankastjóri Kýpur.

Fá teikn eru um að hagkerfi evruríkjanna komist á flug í bráð. Nýlega ákvað evrópski seðlabankinn að gera stýrivexti neikvæða til að reyna að koma hreyfingu á fé í lognmollunni sem einkennt hefur hagkerfi margra evruríkja. 

Athanasios Orphanides, fræðimaður og fyrrverandi seðlabankastjóri á Kýpur og fyrrverandi stjórnarmaður í evrópska seðlabankanum, hélt erindi í dag á ráðstefnu um eftirköst alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Hann segir að ástandið á evrusvæðinu sé sorglegt. „Stærstu mistökin voru að ríkisstjórnir evrusvæðisins gátu ekki unnið saman til að draga úr heildarútgjöldum kreppunnar.“

Orphanides segir að oft hafi ákvarðanir einkennst af þrætum stjórnvalda um hvaða ríki ættu að taka á sig tapið, í stað þess að vinna að sameiginlegum hagsmunum. „Vandinn er sá að ESB er lauslegt ríkjabandalag og þess vegna er engin einföld leið til að leysa vandann.“

Orphanides segir að stjórnvöld standi frammi fyrir mörgum áskorunum. Eitt vandamálið við sameiginlega evrópska bankakerfið sé að sumir bankar hafi ekki notið trausts, einungis vegna þess að þeir hafi starfað í löndum þar sem ríkisfjármálin hafi verið í ólestri. Hann segir að þetta hefði verið hægt að leysa með því að koma á fót sameiginlegu innstæðutryggingakerfi, eins og í Bandaríkjunum. „Allir Evrópubúar vita að þetta er ein leið til að leysa þetta tiltekna vandamál. Ég nefni hana sem dæmi vegna þess að þrátt fyrir áralangar umræður neita sumar ríkisstjórnir evrusvæðisins að samþykkja þessa lausn og okkur miðar ekkert áfram.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi