
Samþykktu formlegar viðræður með níu atkvæðum
Þingflokkurinn ræddi það í fjórar klukkustundir í gær hvort hefja ætti formlegar viðræður um stjórnarmyndun við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Fundinum lauk án niðurstöðu og var ákveðið að ræða málið áfram á fundi sem hófst klukkan eitt í dag. Sá fundur stóð ekki lengi. Greidd voru atkvæði um hvort fara ætti í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við flokkana. Atkvæðagreiðslan fór þannig að mikill meirihluti, níu af ellefu þingmönnum, greiddi atkvæði með því að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Ekki var þó full sátt um þá leið, eins og sést á því að tveir þingmenn greiddu atkvæði gegn henni.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að það gæti gjörbreytt íslensku stjórnmálalandslagi ef Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn ná saman um stjórnarmyndun án mikilla innanflokksátaka. Hingað til hefðu þessir tveir flokkar - og forverar Vinstri grænna - ekki getað unnið saman í ríkisstjórn; það hefði sett Framsóknarflokkinn í algjöra lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum. Nú gæti það breyst til frambúðar ef flokkarnir lengst til hægri og vinstri ná saman um farsælt ríkisstjórnarsamstarf.
Fréttin hefur verið uppfærð.