Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Samþykktu formlegar viðræður með níu atkvæðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti upp úr hádegi að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Níu þingmenn greiddu atkvæði með því að hefja viðræðurnar en tvö voru því mótfallin. Það eru þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson.

Þingflokkurinn ræddi það í fjórar klukkustundir í gær hvort hefja ætti formlegar viðræður um stjórnarmyndun við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Fundinum lauk án niðurstöðu og var ákveðið að ræða málið áfram á fundi sem hófst klukkan eitt í dag. Sá fundur stóð ekki lengi. Greidd voru atkvæði um hvort fara ætti í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við flokkana. Atkvæðagreiðslan fór þannig að mikill meirihluti, níu af ellefu þingmönnum, greiddi atkvæði með því að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Ekki var þó full sátt um þá leið, eins og sést á því að tveir þingmenn greiddu atkvæði gegn henni.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að það gæti gjörbreytt íslensku stjórnmálalandslagi ef Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn ná saman um stjórnarmyndun án mikilla innanflokksátaka. Hingað til hefðu þessir tveir flokkar - og forverar Vinstri grænna - ekki getað unnið saman í ríkisstjórn; það hefði sett Framsóknarflokkinn í algjöra lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum. Nú gæti það breyst til frambúðar ef flokkarnir lengst til hægri og vinstri ná saman um farsælt ríkisstjórnarsamstarf.

Fréttin hefur verið uppfærð.