Samningurinn er við The Beluga Building Company ehf., sem var sett á fót af Merlin Entertainment og stefnir einnig að því að flytja nokkra mjaldra til Íslands og hafa þá til sýnis í Klettsvík í Eyjum. Merlin Entertainment er næststærsta skemmtigarða- og afþreyingarfyrirtæki í heimi og það stærsta í Evrópu. Það rekur meðal annars alla átta Legoland-garðana sem til eru, vaxmyndasöfn undir merkjum Madame Tussauds í 21 borg og parísarhjólið London Eye, svo fátt eitt sé nefnt.
Leigusamningurinn sem bæjarráð samþykkti í gær er til 20 ára. Leiguverðið fyrir fermetrana 800 er 190 þúsund krónur á mánuði en fyrstu fimm árin verður veittur af því helmingsafsláttur. Þá fær Vestmannaeyjabær hluta af tekjum ef þær fara yfir 125 milljónir á ári. Páll Marvin Jónsson, formaður bæjarráðs, segir að Vestmannaeyjabær fengi þá 10% af umframtekjunum. Gert er ráð fyrir 30 til 40 þúsund gestum á ári.
Stofnkostnaður við safnið, þar sem lunda og hvölum verður gert sérstaklega hátt undir höfði, er áætlaður um 500 milljónir og Vestmannaeyjabær tekur engan þátt í honum. Leigusamningurinn gerir ráð fyrir að ákveði fyrirtækið að hætta starfsemi muni bærinn eignast safnið og allt tilheyrandi honum að kostnaðarlausu, að því er segir í fundargerð bæjarráðs.
„Bæjarráð fagnar þessum samningi og telur að með honum sé hagsmunum Vestmannaeyjabæjar afar vel borgið,“ segir í fundargerðinni.
Til stendur að mjaldrarnir komi til landsins í mars á næsta ári, að sögn Páls Marvins, og að safnið verði opnað samhliða því.