Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Samþykkt samhljóða hjá Framsókn

29.11.2017 - 22:08
Mynd: Skjáskot / RÚV
Ný ríkisstjórn tekur til starfa á morgun. Það varð ljóst þegar Framsóknarflokkurinn varð síðastur stjórnarflokkanna þriggja til að samþykkja stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar. Sáttmálinn var samþykktur samhljóma.

Sjálfstæðismenn samþykktu stjórnarsáttmálann mótatkvæðalaust á fundi sem lauk á sjöunda tímanum í kvöld og á tíunda tímanum lágu úrslit fyrir hjá Vinstri grænum, þar greiddu 80 prósent atkvæði með stjórnarsáttmálanum.

„Öflugur fundur, stóð í tvo tíma, gleðilegur og endaði þannig að þetta var samþykkt samhljóða eftir nokkrar umræður sem voru mjög góðar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, að fundi loknum þegar niðurstaða lá fyrir. „Það var handaupprétting og allir sem greiddu atkvæði með þessu.“

„Það er auðvitað þannig að þegar það er málefnasamningur milli þriggja flokka er það málefnasamningur. En við Framsóknarmenn erum miðjuflokkur, við erum vön að þurfa að gera málamiðlanir og kunnum að gera það,“ sagði Sigurður Ingi. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV