Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samstarfsmaður Fillon hættir að styðja hann

Mynd með færslu
Francois Fillon og eiginkona hans Penelope á kosningafundi í París.  Mynd: EPA
Bruno Le Maire, einn nánasti samstarfsmaður François Fillon, frambjóðanda hægri manna fyrir forsetakosningarnar í Frakklandi, tilkynnti í dag að hann væri hættur samstarfi við Fillon. Le Maire segir ástæðuna þá að Fillon hefði gengið á bak orða sinna.

Fillon tilkynnti í janúar að hann myndi draga framboð sitt til baka, ef yfirvöld hæfu rannsókn á ásökunum um að eiginkona hans hefði þegið ólögmæt laun frá hinu opinbera - en hefur síðan skipt um skoðun.  Le Maire er fyrrverandi ráðherra landbúnaðarmála. Hann bauð sig fram í prófkjöri hægri manna á síðasta ári, en hlaut lítið fylgi. Í kosningabaráttu Fillons hefur Le Maire hefur verið einn helsti ráðgjafinn á sviði Evrópu- og utanríkismála. 

Forsetakosningarnar í Frakklandi verða haldnar í apríl. Marine Le Pen hefur forystuna samkvæmt nýjustu  skoðanakönnunum, með 25 prósent fylgi. Næstur henni kemur Emanuel Macron með 24 prósent, en Fillon er með 21 prósent. Tveir efstu frambjóðendurnir komast í aðra umferð kosninganna. 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV