Samstaða um að kjósa nýja forsætisnefnd

15.01.2019 - 20:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Samstaða er um að kjósa nýja forsætisnefnd skipaða tveimur til þremur þingmönnum eða fleirum til að koma Klausturmálinu í farveg og vísa því til siðanefndar. Þeir þingmenn þurfa að vera óumdeilanlega hæfir og hafi ekki tjáð sig um málið svo hægt sé að draga hæfi þeirra í efa. Þetta verður eina verkefni nefndarinnar. 

Segja má að niðurstaða Klausturmálsins hafi verið í lausu lofti frá því fyrir jól eða eftir að forsætisnefnd Alþingis lýsti sig vanhæfa til að fjalla um málið. Þar af leiðandi hefur málinu enn ekki verið vísað til siðanefndar sem á að taka málið fyrir. Forseti Alþingis fór yfir málið með forsætisnefnd í gær og með formönnum allra þingflokka í hádeginu í dag. Mjög góð samstaða er um það í nefndunum að kjósa viðbótarvaraforseta inní forsætisnefnd, tvo til þrjá eða fleiri, nokkurs konar nýja forsætisnefnd sem hafi það eina verkefni að koma þessu máli í farveg, þeir verði úr hópi þeirra þingmanna sem eru óumdeilanlega hæfir og hafa ekki tjáð sig á neinn hátt þannig um málið að hægt sé að draga hæfi þeirra og hlutlægni í efa og þeim verði svo falið að taka við málinu og koma því í réttan farveg.

Þessir þingmenn verði kosnir í næstu viku með afbrigðum frá þingsköpum.

En hver kemur með tillögur um hvaða þingmenn þetta skuli vera?

„Þær bara útbý ég í samráði við formenn þingflokka og ber svo upp tillögu um frávik eða afbrigði frá þingsköpum og um kosninguna. Og það er þá þessi nýja nefnd sem myndi vísa málinu til siðanefndar? Já það er hugsunin,“ segir Steingrímur. 

Steingrímur segir endanlega niðurstöðu sennilega ekki liggja fyrir fyrr en í lok mars, byrjun apríl, þannig að álit siðanefndar liggi fyrir þótt æskilegt hefði verið að niðurstaða lægi fyrir fyrr. Í framhaldinu verði fyrirkomulagið í heild tekið til endurskoðunar. 

Þeir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hafa hvorki gefið fjölmiðlum né Alþingi upp hvenær eða hvort þeir ætli að snúa aftur til þingstarfa en þeir hafa verið í leyfi síðan Klausturmálið varð opinbert í lok nóvember. 

Þá hefur verið boðaður opinn fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrramálið þar sem skipan sendiherra verður rædd en reynt hefur verið að koma þessum fundi á síðan fyrir jól. Kom það í framhaldi af yfirlýsingum Gunnars Braga um að honum hefði verið lofuð sendiherrastaða. Þeir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa staðfest komu sína á fundinn en þangað eru líka boðaðir þeir Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. 
 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi